Hersýningu frestað um ár

AFP

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur frestað fyrirhugaðri hersýningu sem halda átti í tengslum við vopnahlésdaginn í að minnsta kosti eitt ár.

Hersýningin átti í upphafi að vera til minningar um lok fyrri heimsstyrjaldarinnar (11. nóvember) og til heiðurs þeim sem féllu og fyrrverandi hermanna. En nú hefur hersýningunni verið frestað til ársins 2019 hið minnsta. 

Stuttu áður en tilkynnt var um að sýningunni hefði verið frestað voru birtar upplýsingar um að viðburðurinn gæti kostað um 90 milljónir Bandaríkjadala, 9,8 milljarða króna, sem er meira en þrisvar sinnum meira en lagt var upp með.

Donald Trump fylgdist með hersýningunni í París á Bastilludaginn í …
Donald Trump fylgdist með hersýningunni í París á Bastilludaginn í fyrra. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, fór fram á að slík hersýning yrði haldin eftir að hafa séð sambærilega sýningu á Bastilludaginn, þjóðhátíðardegi Frakka, í París í fyrra. Þá lýsti hann yfir löngun sinni til þess að gera betur en Frakkar. 

Talsmaður varnarmálaráðuneytisins, Rob Manning ofursti, segir í yfirlýsingu að varnarmáladeild Hvíta hússins hafi samþykkt að skoða frekari möguleika á næsta ári.

Bandarískur embættismaður sagði í samtali við AFP-fréttastofuna í gær að útlit væri fyrir að hersýningin myndi ekki kosta undir 92 milljónum Bandaríkjadala. Fjármálastjóri viðburðarins hafði áður lagt fram kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á 10-30 milljónir Bandaríkjadala.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert