Myrti alla fjölskylduna

Chris Watts.
Chris Watts. Ljósmynd Frederick Police Department

Fjölskyldufaðir í Colorado hefur verið ákærður fyrir morð á þungaðri eiginkonu sinni og tveimur ungum dætrum sínum. Mæðgurnar hurfu á mánudag og hafði Chris Watts lýst því í fjölmiðlum hversu áhyggjufullur hann væri vegna hvarfs þeirra.

Watts, sem er 33 ára, var handtekinn á miðvikudagskvöldið og á yfir höfði sér dóm fyrir þrjú morð í Denver. Í fréttum sjónvarpsstöðvarinnar Denver 7 kom fram að Watts hafi játað að hafa myrt fjölskyldu sína.

Lík Shannan Watts, sem var 34 ára og komin 15 vikur á leið, fannst á miðvikudag á landareign olíufyrirtækis þar sem Chris Watts starfaði. Eins fundust lík dætranna, Bellu, sem var þriggja ára gömul, og Celeste, sem var fjögurra ára, þann sama dag að sögn lögreglu í gær.

Mæðgurnar hurfu á mánudag. Watts sagði í viðtali við KMGH-sjónvarpsstöðina á þriðjudag að hann hafi haldið að eiginkona hans hefði farið með börnin til vinafólks þar sem hún svaraði ekki textaskilaboðum frá honum. Hann sagði að hún hefði komið úr vinnuferð snemma á mánudag og þau hefðu deilt. 

„Við áttum tilfinningaþrungið samtal. Ég segi ekki meira en það. Ég vil þær bara aftur. Ég vil að þær komi heim aftur,“ sagði hann í viðtali við KMGH. 

Að hans sögn var mánudagskvöldið erfitt án þess að spjalla við dæturnar við kvöldmatinn og hefðbundinna verkefna fjölskyldunnar. 

„Í gærkvöldi hafði ég kveikt á öllum ljósum í húsinu. Ég var að vona að börnin hlypu inn um dyrnar. En það gerðist ekki.“

Frétt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert