Vill fangelsi fyrir ráðgjafa Trump

Robert Mueller.
Robert Mueller. AFP

Robert Mueller, sérstakur saksóknari dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur lagt til að George Papadopoulos, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, verði dæmdur í allt að sex mánaða fangelsi.

Mueller, sem fer fyrir rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016, sagði samkvæmt BBC að slíkur dómur „ætti rétt á sér“ og væri „viðeigandi“.

Papadopoulos hefur viðurkennt að hafa logið um tengsl sín við Rússland á meðan hann vann fyrir forsetaframboð Trumps. Hann varð síðan ráðgjafi í utanríkismálum.

George Papadopoulos í London.
George Papadopoulos í London. AFP

Í janúar í fyrra var Papadopoulos fyrst yfirheyrður af alríkislögreglunni um tengsl sín við Rússa, sem hann fullyrti að væru engin. Í júlí á síðasta ári var hann svo handtekinn á Dulles-alþjóðaflugvellinum fyrir utan Washington-borg og í október í fyrra varð hann fyrstur til að játa sig sekan um tengsl við Rússa í rannsókn Mullers og FBI.

Áætlað er að dómsuppkvaðning fari fram 7. september.

Einn þriggja sem hafa játað sök

Í orðsendingu Muellers til dómara málsins segir að stjórnvöld taki ekki afstöðu til þess hvaða refsingar gripið verði til, en leggi „vinsamlegast fram að dómur innan viðeigandi viðmiða, sem nemi fangelsisvist til núll til sex mánaða, sé viðeigandi og eigi rétt á sér“.

Í orðsendingunni segir einnig að Papadopoulos hafi logið að alríkislögreglunni um tengsl sín við tengiliði Rússa.

Á meðal þeirra tengiliða var prófessor í London sem upplýsti Papadopoulos meðan á kosningabaráttu Trump stóð, að Rússar hefðu eitthvað misjafnt á mótframbjóðanda Trump, Hillary Clinton.

„Lygar hins stefnda skertu möguleika rannsakenda á að sækja prófessorinn til saka og mögulega handtaka hann á meðan hann var enn þá í Bandaríkjunum,“ segir í orðsendingunni.

„Falskur vitnisburður hins stefnda var til þess gerður að hefta rannsóknina og gerði svo.“

Papadopoulos er einn þriggja fyrrverandi starfsmanna framboðs Trumps sem hafa viðurkennt að hafa logið að rannsakendum í Mueller-rannsókninni. Hinir tveir eru Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, og Richard Gates sem var varastjórnarformaður í framboði Trumps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert