Baráttan um kosningar fær milljónir

Dominic Raab, sem sér um málefni Brexit fyrir bresk stjórnvöld. …
Dominic Raab, sem sér um málefni Brexit fyrir bresk stjórnvöld. Margir óttast að enginn samningur náist áður en Bretland yfirgefur ESB. AFP

Herferðin fyrir nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, um endanlegan Brexit-samning við Evrópusambandið, hefur fengið byr undir báða vængi eftir að annar stofnandi Superdry tískurisans, Julian Dunkerton, styrkti herferðina um eina milljón punda eða sem jafngildir um 136 milljónum íslenskra króna. Sífellt fleiri Bretar óttast að Bretland yfirgefi Evrópusambandið án nokkurs samnings.

Auðkýfingurinn segist vera að leggja sitt af mörkum þar sem hann sjái „alvöru möguleika á að snúa þessu við“. Þá sagði hann einnig, eftir því sem fram kemur í umfjöllun Guardian, að vörumerki hans hefði aldrei getað gengið vel ef Brexit hefði gerst fyrir tuttugu árum. Superdry var stofnað árið 1985 og fór fyrst að þenja út starfsemi sína um aldarmótin.

Framlag Dunkerton mun fjármagna fjölda skoðanakannana sem skipuleggjendur vona að muni færa þeim mikilvægan meðbyr. Þeir sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu eru í kapphlaupi við tímann þar sem Bretland verður ekki aðili að Evrópusambandinu eftir að marsmánuði á næsta ári lýkur.

Skoðanakönnun í tímaritinu Observer gefur til kynna að 40% Breta finnist líklegast að Bretland yfirgefi Evrópusambandið án samnings, sem er um 9% aukning frá því í síðasta mánuði. 22% telja að Bretland yfirgefi sambandið með samning og 16% ætla að Bretland yfirgefi sambandið ekki.

Þeir sem fara fyrir baráttunni um þjóðaratkvæðagreiðslu eru nú að skipuleggja umfangsmikla skoðanakönnun sem kemur til með að kanna viðhorf Breta til atkvæðagreiðslu um lokaútkomu Brexit-samnings. Nýlegar kannanir gefa í skyn að 45% kjósenda séu hlynntir atkvæðagreiðslu og 34% andsnúnir.

Það er þó ljóst að slík atkvæðagreiðsla yrði erfið í framkvæmd. Lítill tími er til stefnu og menn greinir á um hvað eigi að spyrja kjósendur. Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn eru báðir mótfallnir atkvæðagreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert