Heilu þorpin skolast í burtu

Horft yfir norðurhluta Kerala-fylkis í gærdag.
Horft yfir norðurhluta Kerala-fylkis í gærdag. AFP

Björgunarmenn hafa vaðið inn í þorp sem á kafi eru í vatni á Suður-Indlandi í dag, í örvæntingarfullri leit að fólki sem komist hefur lífs af eftir flóð sem þegar hafa orðið á fjórða hundrað manns að bana.

Heilu þorpin í Kerala-fylki í suðurhluta Indlands hafa skolast í burtu í verstu flóðum í manna minnum. Búast viðbragðsaðilar við því að fjöldi látinna eigi aðeins eftir að hækka þegar þeir ná til svæða sem eru næstum alfarið á kafi í vatni.

Í borginni Thrissur hefur björgunarlið rekist á mörg lík fólks inni í íbúðarhúsum, sem átti enga von um að sleppa þegar flóðvatnið jókst á ógnarhraða.

„Þau héldu ekki að vatnið myndi ná þessum hæðum, 3 til 4,5 metrum sums staðar, þegar fyrstu viðvaranir voru gefnar út,“ segir Ashraf Ali K.M., sem fer fyrir leitinni í bænum Mala. Síðar bárust beiðnir um björgun þegar vatnið tók að rísa hátt og hratt,“ segir hann í samtali við fréttastofu AFP.

Þúsundir hermanna hafa verið sendar á vettvang í Kerala til að aðstoða íbúa. Staðfest er að 357 eru látnir, en þar af létust 33 á undanförnum sólarhring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert