Börn í skrúðgöngu klædd sem vígamenn

Búningar barnanna hafa vakið mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum og er …
Búningar barnanna hafa vakið mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum og er leikskólinn sakaður um að sá fræjum Ríkis íslams. Skjáskot/Twitter

Leikskóli í Indónesíu baðst í dag afsökunar á því að nemendur skólans hefðu tekið þátt í skrúðgöngu íklæddir niqab-slæðum og með pappírsriffla. Uppátækið vakti mikla reiði í Indónesíu og hafa skipuleggjendur skrúðgöngunnar sætt mikilli gagnrýni.

Bentu margir á að klæðnaðurinn hefði verið í anda vígasamtakanna Ríkis íslams og að með honum væri verið að hampa ofbeldisverkum vígamanna, en nokkuð er um árásir uppreisnarmanna í landinu.

Það voru 15 nemendur Kartika-leikskólans í borginni Surabaya, sem klæddust þessum búningum í skrúðgöngu  sem var farin til að fagna fullveldisdegi Indónesíu.

Forsvarsmenn leikskólans segja búningana hafa verið til í geymslu í skólanum og að tilgangurinn hafi verið að spara foreldrum nemendanna fé. Þeir neituðu því hins vegar alfarið að með pappírsbyssunum og slæðunum hafi þeir verið að hvetja til ofbeldis.

„Ég ætlaði aldrei að kenna nemendum mínum ofbeldi,“ hefur AFP eftir skólastjóranum Suhartatik. Við notuðum leikmuni sem þegar voru til, til að spara foreldrum fé. Ég biðst innilega afsökunar.“

Sagði hann búningana hafa verið notaða í fyrri skrúðgöngum til að kenna börnunum um trú Múhammeðs spámanns. Notendur samfélagsmiðla í Indónesíu telja þessa skýringu hins vegar ótrúverðuga. „Enginn gekk um með hríðskotariffla á tímum spámannsins. Er þessi kennari úti að aka eða er hann bara að reyna að komast hjá ásökununum?“ sagði einn á Twitter. Það er greinilega verið að sá fræjum Ríkis íslams snemma,“ sagði annar.

Forseti indónesíska þingsins, Bambang Soesatyo, gagnrýndi einnig ákvörðunina og sagði málið „áhyggjuefni“.

„Foreldrar og kennarar eiga að vernda börn fyrir svona skaðlegum hugsunarhætti,“ sagði hann við fréttavefinn Detik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert