Mannskaði og neyð í þróaðasta fylki Indlands

Frá björgunaraðgerðunum.
Frá björgunaraðgerðunum. AFP

Í 5.645 neyðarmiðstöðvum í indverska fylkinu Kerala í suðurhluta landsins leita nú um 725.000 almennir borgarar skjóls frá verstu flóðum þar á síðustu hundrað árum. Tilkynnt var um 13 dauðsföll á sunnudag og 33 á laugardag, en alls hafa yfir 370 borgarar látið lífið síðan monsúntímabilið hófst í maí, flestir í aurflóðum.

Vatnshæðin hefur nú tekið að lækka eftir því sem rigningin minnkar, en fjölmargir borgarar eru strandaglópar þar sem heilu þorpin hafa þurrkast út í flóðunum. Stefnubreyting varð í björgunaraðgerðum indverskra stjórnvalda í gær og er áhersla nú lögð á að tryggja neyðarmiðstöðvum lyf, mat og hreint vatn og fyrst og fremst að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma.

Unnið er að því að koma lyfjum, matvælum og hreinu …
Unnið er að því að koma lyfjum, matvælum og hreinu vatni til neyðarskýla. AFP

Gular og rauðar viðvaranir hafa verið afturkallaðar og samkvæmt indversku veðurstofunni ætti að stytta upp í lok vikunnar.

„Það sem er að gerast í Kerala eru ekki aðstæður sem við erum að missa stjórn á,“ sagði yfirráðherra fylkisins, Pinarayi Vijayan. „Þetta hefur batnað mikið.“

Þúsundir íbúa eru enn fastir í sjálfheldu á heimilum sínum og vinna björgunaraðilar að því að sækja íbúa með þyrlum af húsþökum. Í úthverfinu Chengannur eru að minnsta kosti 5.000 íbúar enn strandaglópar á heimilum sínum og er gert ráð fyrir að þeir verði fluttir með flugi eða bátum á neyðarmiðstöðvar í dag.

Vijayan hét því í gær að öllum borgurum yrði bjargað, en í gær var áætlað að 10.000 íbúar kæmust í neyðarskýli í dag samkvæmt BBC.

AFP

320 milljarða króna skaði

Flóð eru algeng í Kerala á monsúntímabilinu. Í ár aftur á móti rigndi 40% meira en gerir vanalega og þá sérstaklega í síðustu viku þegar mesta mannfallið varð. Þá var rigning 250% meiri en vanalega. Þá neyddust yfirvöld til þess að opna flóðgáttir á hættulega yfirfullum uppistöðulónum.

AFP

Umfang skaða á innviðum í fylkinu verður óljóst þar til vatnsborðið lækkar enn frekar, en Vijayan segir að laga þurfi að minnsta kosti 83.000 kílómetra af akvegum. 20.000 heimili og 40.000 hektarar af uppskeru hafa einnig eyðilagst í smærri þorpum sem þurrkuðust mörg hver út.

Íbúar í þeim borgum sem helst sluppu við umfang flóðanna hafa margir tekið að snúa aftur heim til sín til að meta skaðann.

„Allt húsið er þakið drullu,“ sagði TP Johnny, íbúi borgarinnar Kochi sem slapp við mesta skaðann, við blaðamann Reuters. „Öll raftækin okkar, þar á meðal sjónvarpið og ísskápurinn, eru eyðilögð.“

Paravur, úthverfi Kochi.
Paravur, úthverfi Kochi. AFP

Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, kannaði aðstæður úr þyrlu um helgina og hitti helstu ráðamenn í fylkinu auk björgunarmanna. Þá lofaði hann 70 milljónum dollara, 7 og hálfum milljarði króna, til enduruppbyggingar. Yfirvöld á svæðinu telja að skaðinn nemi allt að 3 milljörðum dollara eða því sem jafngildir 322 milljörðum króna.

Mínútuþögn í Vatíkaninu

Á sunnudag var mínútuþögn í Vatíkaninu í Róm þegar Frans páfi minntist hinna látnu.

„Kirkjan í Kerala stendur mér nærri, hún er í fremstu línu í að útvega hjálp til fólksins,“ sagði hann. Þá kallaði hann á samúð og „áþreifanlega aðstoð alþjóðasamfélagsins“.

AFP

Í Kerala er stórt og ævagamalt kristið samfélag. Frans páfi hugðist heimsækja Indland í fyrra í heimsókn sinni til Bangladesh, en undirbúningur gekk ekki upp og fór hann í staðinn til Mjanmar.

Eitt þróaðasta og vatnsmesta fylki Indlands

Kerala-fylkið skiptist í 14 minni umdæmi og þar búa alls um 33 milljónir manna. Fylkið var formlega stofnað í nóvember árið 1956 og er 13. stærsta fylki Indlands.

AFP

Kerala er hvað þekktast fyrir strandlengju sína í vesturhluta fylkisins. Stórt net ísaltra skurða, fljóta og árósa setja svip sinn á svæðið og eru þekkt sem Kerala-útkjálkinn. Um 8% af vatnsfarvegum á Indlandi er að finna í vesturhluta Kerala.

Þar eru um 44 fljót sem eru að meðaltali 64 kílómetra löng. Mörg þeirra þykja heldur lítil og eru mörg úr monsúnrigningum. Þar sem árnar eru margar litlar og ekki óseyraríkar, eru þær viðkvæmari fyrir umhverfisáhrifum. Að svæðinu steðja ýmsar náttúruvár eins og aurskriður, flóð og þurrkar en jafnmiklar náttúruhörmungar og þar geisa núna eru óþekktar.

Tjónið í Kerala nemur allt að 3 milljörðum dollara.
Tjónið í Kerala nemur allt að 3 milljörðum dollara. AFP

Kerala er 12. stærsta hagkerfi indverskra fylkja. Þar er fólksfjölgun minnst á öllu Indlandi, læsi mest og lífslíkur mestar eða 77 ár. Þar eru kynjahlutföll einnig jöfnust og lífkjaravísitala hæst.

Úr neyðarskýli.
Úr neyðarskýli. AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert