Rannsókn á Argento ekki hafin

Samsett mynd af Jimmy Bennett og Asia Argento.
Samsett mynd af Jimmy Bennett og Asia Argento. AFP

Lögreglan í Los Angeles hefur ekki hafið rannsókn á meintri kynferðislegri misnotkun ítölsku leikkonunnar Asiu Argento á sautján ára unglingi fyrir fimm árum.

Blaðið New York Times greindi frá því í gær að Argento, sem hefur sakað framleiðandann Harvey Weinstein um nauðgun, hefði greitt Jimmy Bennett 380 þúsund Bandaríkjadali, eða um 41 milljón króna, fyrir að þegja um atvikið, sem er sagt hafa átt sér stað á hóteli í Los Angeles árið 2013.

Lögmaður Weinstein hefur sakað Argento um hræsni og segir að fregnirnar grafi undan máli hennar gegn framleiðandanum, sem hefur verið sakaður um að hafa misnotað fjölda kvenna. 

Talsmaður lögreglunnar í Los Angeles segir að engin rannsókn sé hafin á ásökununum. „Það verður grennslast fyrir um málið. Á þessari stundu er bara verið að skoða stöðuna og safna saman upplýsingum, þar sem engin rannsókn er hafin,“ sagði Kimberly Alexander við AFP.

Hún kvaðst ekki vita hvort lögreglan hefði haft samband við Bennett.

Benn­ett var ný­lega orðinn 17 ára gam­all þegar Arg­ento á að hafa beitt hann of­beldi. Í Kali­forn­íu eru samþykkis­ald­urs­mörk­in 18 ára. Hann er 22 ára gam­all í dag en Arg­ento er rúm­lega fer­tug.

Bennett höfðaði mál gegn Argento einum mánuði eftir að greint var frá ásökunum Argento í garð Weinstein.

Hvorki Argento né talsmenn hennar hafa viljað tjáð sig um málið eftir að frétt New York Times fór í loftið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert