Fangavörður fluttur til Þýskalands

Jakiw Palij.
Jakiw Palij. AFP

Þýska utanríkisráðuneytið tók í dag á móti 95 ára gömlum manni sem var fangavörður í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni en bandarísk yfirvöld sviptu hann ríkisborgararétti.

Jakiw Palij, sem er af úkraínskum uppruna, var vísað úr landi í Bandaríkjunum í gærkvöldi og staðfestu þýsk yfirvöld í dag að hann hafi fengið að koma til Þýskalands. Vísaði utanríkisráðuneytið í siðferðislega ábyrgð þýska ríkisins á glæpum nasista. 

„Bandaríkin hafa ítrekað þrýst á Þjóðverja að taka við Palij,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Stjórnvöld í Berlín hafa reynt að berjast á móti enda talið að það væri ekki þeirra skylda þar sem hann væri ekki þýskur ríkisborgari.

Bandarísk yfirvöld, öldungadeildarþingmenn og fulltrúadeildarþingmenn og forsvarsmenn gyðinga í Bandaríkjunum, segja að þeir sem hafi þjónað nasistum eigi ekki að eiga þess kost að búa í friðsæld og njóta lífsins á seinni hluta ævinnar í draumalandinu – Bandaríkjunum, segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

Palij leyndi með ólögmætum hætti fortíð sinni sem starfsmaður nasista í útrýmingarbúðum þegar hann flutti til Bandaríkjanna árið 1949, segir í tilkynningu frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu en hann fékk bandarískan ríkisborgararétt árið 1957.

Í tilkynningu frá bandaríska forsetaembættinu kemur fram að Donald Trump hafi sett brottvísun Palij í forgang til þess að standa við loforð um að vernda fórnarlömb helfararinnar og fjölskyldur þeirra.

Brottvísun Palij sendi öflug skilaboð um að Bandaríkin muni ekki umbera þá sem hylltu glæpi nasista og önnur mannréttindabrot og þeir fái ekki skjól á bandarískri grund, segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu. 

Þýskir fjölmiðlar greina frá því að Palij hafi komið með flugi til Düsseldorf snemma í morgun og farið hafi verið með hann á hjúkrunarheimili. Samkvæmt frétt Bild hófst rannsókn á glæpum Palij árið 2015 en rannsókninni var hætt vegna skorts á sönnunargögnum. Ólíklegt þykir að Palij verði saksóttur í Þýskalandi. 

Bandarísk yfirvöld hafa í tæpa tvo áratugi reynt að vísa Palij úr landi en hann hefur búið í Queens-hverfinu í New York frá 1949.

Palij fæddist á svæði sem tilheyrði á þeim tíma Póllandi en nú Úkraínu. Hann viðurkenndi fyrir alríkislögreglunni árið 2001 að hann hafi hlotið þjálfun sem fangavörður nasista vorið 1943. 

Alríkisdómari afturkallaði bandarískan ríkisborgararétt Pajils í ágúst 2003 og ári síðar fór bandaríska innflytjendaeftirlitið fram á að honum yrði vísað úr landi og hann sendur til Úkraínu fyrir að hafa starfað fyrir nasista í Tranwniki-fangabúðunum sem voru í Póllandi sem var á þessum tíma hernumið af Þjóðverjum.

Í málsskjölunum kemur fram að samkvæmt bandarískum stjórnvöldum tóku menn sem hlutu þjálfun í Trawniki þátt í aðgerðum þriðja ríkisins – Reinhard-aðgerðinni – sem fólst í því að drepa gyðinga í Póllandi.

Þriðja nóvember 1943 voru yfir sex þúsund fangar í Tranwniki skotnir til bana á einum degi. Fjöldamorðin á körlum, konum og börnum í Tranwniki eru ein stærstu einstöku fjöldamorðin á tímum helfararinnar. Palij tók þátt í þessum aðgerðum samkvæmt niðurstöðu bandarískra yfirvalda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert