Hafna launahækkunum þingmanna

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, ásamt viðskiptaráðherra landsins, David Parker.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, ásamt viðskiptaráðherra landsins, David Parker. AFP

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, hefur fryst laun þingmanna og segir að fyrirhugaðar launahækkanir þeirra séu á skjön við aðrar launahækkanir í landinu og til þess eins að auka bilið á milli ríkra og fátækra enn frekar.

Ákvörðun hennar nýtur stuðnings allra ríkisstjórnarflokkanna sem og Þjóðarflokksins, sem er í stjórnarandstöðu.

Ardern er formaður Verkamannaflokks Nýja-Sjálands og hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá því í október í fyrra. 

Laun þingmanna verða fryst þangað til í júlí á næsta ári að sögn Ardern og sanngjarnari aðferð verði beitt í framtíðinni þegar kemur að hækkun launa þingmanna. Árslaun þingmanna í Nýja-Sjálandi eru frá 163 þúsund nýsjálenskum dölum til rúmlega 450 þúsund dala. Þetta samsvarar 11,7 til 32,4 milljónum króna.

Ardern segir að það eina rétta í stöðunni hafi verið að frysta laun þeirra og væri ekki gert til þess að draga úr kostnaði heldur gert til þess að gera Nýja-Sjáland að meira jafnréttisþjóðfélagi.

Forsætisráðherra var hvattur til þess að grípa til aðgerða eftir að kjararáð lagði til að laun þingmanna hækkuðu um 3%. Fjölmörg stéttarfélög á Nýja-Sjálandi hafa farið í verkfall í ár og má þar nefna kennara, hjúkrunarfræðinga og fleiri starfsstéttir. 

Laun forsætisráðherra á ári nema 32,4 milljónum króna sem eru hærri laun en forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, og forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, hafa samkvæmt frétt Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert