Segir eiginkonu sína hafa myrt dæturnar

Chris Watts.
Chris Watts. Ljósmynd/Frederick Police Department

Fjöl­skyldufaðirinn í Col­orado-ríki í Bandaríkjunum, sem var í lok síðustu viku ákærður fyrir að hafa orðið óléttri eiginkonu sinni og tveimur dætrum að bana, hefur nú sakað eiginkonu sína um morðin á dætrunum. Hann heldur því fram að hafa gengið inn á konu sína að kæfa þær.

Tilkynnt var um hvarf Shanann Watts, 34 ára, og dætra hennar tveggja Celeste, 3 ára, og Bellu, 4 ára, 14. ágúst eftir að vinkona Watts hafði lýst yfir áhyggjum sínum af Shanann. Vinkonan sagði við lögreglu að Shanann væri komin 15 vikur á leið með sitt þriðja barn og að henni hefði liðið illa þegar hún skutlaði henni heim eftir að þær höfðu komið heim úr viðskiptaferð kvöldið áður.

Eiginmaður Shanann, Chris Watts, 33 ára, lýsti fyrst um sinn yfir áhyggjum sínum af mæðgunum en var daginn eftir handtekinn vegna gruns um morð og á að hafa játað á sig þær sakir að hafa myrt mæðgurnar. 

Í dómsskýrslu sem CNN fjallar um í dag segir Chris þó allt aðra sögu. Hann segir að Shanann hafi komið heim úr ferðinni um klukkan 2 eftir miðnætti. Hann segist svo hafa vaknað um klukkan 5 um morguninn og „byrjað að ræða við Shanann um skilnað og tilkynnt henni að hann vildi hafa frumkvæðið að skilnaðinum,“ segir í eiðsvarinni yfirlýsingu Chris við lögreglu eftir handtöku hans. Þá sagði hann að samræðan hafi verið kurteisleg og tilfinningarík af hans hálfu.

Chris segist svo hafa yfirgefið heimili sitt klukkan 5:27 um morguninn og farið til vinnu. Eftirlitsupptaka staðfesti þetta eftir því sem lögregluyfirvöld segja við ABC-fréttastofuna.

Breytti frásögn um framhjáhald 

Eftir að hafa kannað hvort einhverjar vísbendingar um glæpi hefðu verið á Watts-heimilinu hóf lögregla að spyrja Chris nánar um aðdragandann að hvarfi eiginkonu hans.

Í þetta skiptið sagði Chris við lögreglu að klukkan fjögur um morguninn hefði hann tilkynnt Shanann að hann vildi skilnað og að hún hafi sagst ætla að fara til vinkonu sinnar næsta kvöld og dvelja þar. Chris sagðist svo hafa átt í ástarævintýri með samstarfsmanni sínum, en hann hafði neitað því í fyrri skýrslutökunni.

Chris segist svo hafa farið á neðri hæð heimilisins um stund eftir að hafa rætt um hjónaskilnaðinn við Shanann. Hann hafi síðan farið aftur upp í svefnherbergið til að ræða frekar við hana og hafi litið á skjá sem fylgdist með herbergi dætra hennar. Þar hafi hann séð Bellu „sitja flötum beinum á rúminu hennar og var blá og Shanann var að kyrkja Celeste,“ segir í yfirlýsingu hans við lögreglu.

Þá segist Chris hafa orðið svo reiður að hann hafi drepið Shanann með því að kæfa hana.

Dánarorsök enn óþekkt

Hann segist svo hafa komið líkum mæðgnanna fyrir í aftursætinu á bílnum sínum og farið með þær að olíufélaginu þar sem hann vann og gróf Shanann áður en hann kom dætrum sínum fyrir í olíutönkum. 

Áður en Chris viðurkenndi hlut sinn í morðunum fann lögregla sængurver á akri nálægt olíufélaginu. Sængurverið var með sama mynstri og koddaver og lak sem fundust í eldhúsruslinu á Watts-heimilinu sem bendir til að frásögn Chris eigi ekki við rök að styðjast. 

Líkami Shanann fannst 15. ágúst og var Chris handtekinn grunaður um morð þann sama dag. Líkamar dætra þeirra fundust svo daginn eftir. Dánarorsök er enn óþekkt.

Chris var svo formlega ákærður fyrir alls níu ákæruatriði, þar á meðal þrjú morð, og hefur hann ekki sett fram neina málsvörn. Hann kemur fyrir dómara síðar í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert