Smyglað eftir neðanjarðargöngum milli klúbba

Kólumbíska lögreglan hefur bjargað 49 konum sem voru neyddar til að vinna sem kynlífsþrælar í neðanjarðarnæturklúbbum í ferðamannabænum Cartagena í Kólumbíu. Var konunum smyglað í gegnum neðanjarðargöng inn á klúbbana þar sem þær voru neyddar til að vinna, að því er danska ríkisútvarpið DR greinir frá.

26 kvennanna voru frá Kólumbíu og 23 frá Venesúela.

Yfirvöld í Kólumbíu segja konurnar hafa verið neyddar til að starfa við vændi í næturklúbbum, sem staðsettir voru í kjöllurum og sem tengdir voru saman með ganganeti.

Konurnar voru lokkaðar á staðinn með loforði um aðra vinnu, en var síðan haldið föngnum við „hættulegar aðstæður“ að sögn ríkissaksóknarans Mario Gomez. Vegabréf og skilríki voru tekin af konunum sem síðan voru nýttar af neti melludólga.

18 voru handteknir í tengslum við rannsóknina og segir Gomez lögreglu nálægt því að hafa uppi á höfuðpaurum starfseminnar. Þeir eigi yfir höfði sér ákærur fyrir mansal og kynlífsþrælkun.

Kólumbíska lögreglan bjargaði 49 konum sem voru neyddar til að …
Kólumbíska lögreglan bjargaði 49 konum sem voru neyddar til að vinna sem kynlífsþrælar í neðanjarðarnæturklúbbum í ferðamannabænum Cartagena í Kólumbíu. Kort/Google
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert