Kyndir Facebook undir andúð?

AFP

Þegar bæjarbúar í Altena eru spurðir hvað Dirk Denkhaus, ungum slökkviliðsnema, gekk til þegar hann braust inn á háaloft í húsi sem hýsti flóttafólk og reyndi að kveikja í húsinu nefna þeir fyrst kunnuglegar skýringar. Smábær á heljarþröm þar sem unga fólkinu leiðist og er vonlítið um framtíð sína. En þeir nefna einnig Facebook. Eitthvað sem ekki var fyrirsjáanlegt í tengslum við komu flóttafólks til Þýskalands.

New York Times birti í gær ítarlega fréttaskýringu þar sem fjallað er um tengsl á milli mikillar og útbreiddar Facebook-notkunar og útlendingahaturs.

Þrátt fyrir að flestir bæjarbúar hafi stutt ákvörðun bæjarstjórans að taka við fjölmörgum flóttamönnum voru ekki allir sáttir. Sífellt fleiri hafa fært sig út á jaðarinn þegar kemur að stjórnmálum og það á ekki bara við um Þýskaland heldur miklu fleiri lönd.

Allir á þessu svæði hafa séð færslur á Facebook þar sem flóttamönnum er lýst sem ógn. Þeir hafa séð andstæðinga flóttafólks á svæðinu lýsa skoðunum sínum sem og mótsögnina –opinbera stefnu bæjarins á Facebook. 

AFP

Gögn úr síma Denkhaus benda til þess að hann hafi einangrast og fest í heimi ótta og reiði á netinu. Eitthvað sem ýtti honum inn í heim ofbeldisins. 

Þetta er ekki úr lausu lofti gripið ef horft er til þess sem rannsóknir sýna. Að samfélagsmiðillinn Facebook geti ýtt samfélögum í átt að kynþáttahatri. Altena er einn þeirra fjölmörgu þýsku bæja sem eru hluti af stórri rannsókn sem markar tímamót í rannsóknum á hegðun og áhrifum Facebook á notendur. 

Karsten Müller og Carlo Schwarz hafa unnið rannsókn á öllum árásum tengdum hatri á flóttafólk í Þýskalandi síðustu tvö árin en þau starfa við háskólann í Warwick.

Árásirnar eru alls 3.335 talsins og þau skoðuðu ákveðna þætti varðandi allar árásirnar. Svo sem efnahag, lýðfræðiupplýsingar, stuðning við öfgahægristjórnmálaflokka, dagblaðasölu, fjölda flóttamanna.

AFP

Fleiri ofbeldisverk þar sem Facebook-notkun er mikil

Ýmislegt forvitnilegt kom í ljós. Til að mynda að þar sem Facebook-notkun er meiri en hún er að meðaltali á landsvísu fjölgaði árásunum um allt að 50%. Í viðtölum í framhaldinu kom í ljós að í einni af hverjum tíu árásum hafði umræðan á Facebook úrslitaþýðingu þegar kom að ástæðunni á bak við árásina.

Fulltrúar Facebook hafa ekki viljað tjá sig um rannsóknina en segja að reglur varðandi hatursáróður hafi verið hertar, þar á meðal gagnvart flóttafólki. Samt sem áður telja þeir að ofbeldið megi ekki rekja beint til hatursorðræðu heldur miklu frekar almenns og um leið slóttugs áróðurs sem fólk setur þar inn. Það er bjagaðrar myndar af raunveruleikanum og samfélaginu. 

Viðhorfið breyttist þegar skipulagið var fært á Facebook

Blaðamenn New York Times heimsóttu Altena og fleiri þýska bæi til þess að skoða málið frekar. Þegar fyrstu flóttamennirnir komu til bæjarins hafði Anette Wesemann, sem stýrir málefnum flóttafólks hjá bænum, ekki undan vegna áhuga bæjarbúa við að veita flóttafólkinu aðstoð.

En þegar hún setti upp Facebook-síðu til þess að skipuleggja sjálfboðaliðastarfið fylltist síðan af beittum áróðri gegn flóttafólki. Eitthvað sem hún hafði ekki upplifað á meðan skráningin fór fram annars staðar en á netinu. Hluti af færslunum kom frá fólki sem ekki var búsett í bænum en einnig frá nokkrum bæjarbúum. Eftir einhvern tíma hafði reiði þeirra smitað út frá sér og orðið alls ráðandi á síðunni.

Þegar Wesemann var sagt frá rannsókninni sem sýnir tengsl Facebook og ofbeldis í garð flóttafólks varð hún ekki hissa. Því þetta var hennar upplifun af áhrifum Facebook á hug fólks.

AFP

Algóriþminn á bak við það sem notendur Facebook sjá byggir á því að koma á framfæri efni sem er líklegt til þess að fá notandann til þess að tengjast efninu enn frekar. Neikvæð umræða og frumtilfinningar eins og reiði eða ótti er það sem virðist hafa þar mest áhrif. Því jafnvel þó að minnihluti notenda lýsi skoðunum sem eru andsnúnar flóttafólki er það þannig að um leið og þær skoðanir verða allsráðandi í fréttastreymi (newsfeed) viðkomandi getur það haft áhrif og afleiðingar fyrir alla aðra. 

Ranghugmyndir verða ráðandi

Því getur Facebook-notandi í Altena, svo dæmi séu tekin, eðlilega dregið þá röngu ályktun að nágrannar hans séu almennt á móti flóttafólki.

Betsy Paluck, félagssálfræðingur við Princeton-háskóla, segir að fólk fái það á tilfinninguna að ofbeldið njóti almenns stuðnings meðal samfélagsins. „Og þetta breytir hugmyndum þínum um að það sé sama hvað þú gerir – þú ert aldrei einn.“

Saksóknari í máli Denkhaus, Gerhard Pauli, segir að ungi maðurinn hafi verið mjög mikið á Facebook og sýnir blaðamönnum NYT myndir og færslur sem voru lagðar fram í málinu. Meðal annars mynd af mönnum dökkum á hörund þar sem skrifað er við: „Velferðarráðuneytið er orðið uppiskroppa með fé. Snúið aftur til starfa.“ 

Denkhaus skrifaðist nánast stöðugt á við vini á Facebook þar sem greinum og andúð á útlendingum var deilt.

Andúðin jókst og einn daginn sagði Denkhaus við félaga sinn „við verðum að gera eitthvað,“ segir Pauli. Denkhaus og vinur hans brutust inn á háaloftið og dreifðu bensíni yfir allt og kveiktu í. Allir sluppu ómeiddir úr eldsvoðanum.

Verjandi Denkhaus hélt því fram að þangað til þetta kvöld hafi skjólstæðingur hans aldrei lýst andúð á flóttafólki. Það hafi aðeins verið á netinu sem hann var fullur af hatri.

AFP

Virkir í athugasemdum öfgafyllri?

Félagsfræðingur hjá Princeton-háskóla, Andrew Guess, segir í samtali við NYT að þeir sem eru virkastir á Facebook virðist vera öfgafyllri, kreddufastari og í raun ýktari en almennt gerist.

Þegar almennir notendur opna Facebook sjá þeir kannski heiminn í ljósi ofurnotenda þar sem skoðanir þeirra virðast fara hraðar um á samfélagsmiðlinum en annarra í samræmi við reiknireglurnar. Þeir virðast því oft vera allsráðandi í fréttastreymi hins venjulega notanda á Facebook.

En í hinum raunverulega heimi velur fólk sjálft á hvern það hlustar og hverja það velur að hunsa. Faglegir hliðverðir, svo sem leiðarahöfundar eða formenn stjórnmálaflokka, ráða því hvaða skoðunum er haldið á lofti. En Facebook virðir slíkt að vettugi.

Hér er hægt að lesa umfjöllun New York Times í heild 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert