Neyðarástand á Hawaii vegna fellibyljar

Hillur verslana eru víða tómar á Hawaii. Ríkisstjóri hvatti fólk …
Hillur verslana eru víða tómar á Hawaii. Ríkisstjóri hvatti fólk til að safna vikubirgðum af mat og vatni. AFP

Donald Trump bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi á Hawaii vegna fellibyljarins Lane sem brátt dynur á Stórueyju (e. Big Island). Veðurfræðingar segja að fellibylurinn hafði róast örlítið, og sé nú í flokki 4 en vindhraði sé um 215 km á klukkustund og með fylgi mikið úrhelli og hættulegt brim.

Frá þessu er greint á vef AFP en þar segir einnig að haf- og veðurstofa Bandaríkjanna (NOAA) hafi í sínum nýjustu tilmælum varað við því að með Lane muni fylgja gegndarlaust regn sem mun hellast yfir eyjarnar fram á helgina. Af því gætu leitt lífshættuleg leifturflóð og skriðuföll.

Safna vistum fyrir vikutímabil

David Ige, ríkisstjóri á Hawaii, hafði strax á þriðjudag lýst yfir neyðarástandi á Stórueyju í von um neyðaraðstoð. „Ég hef aldrei séð jafn miklar sviptingar í veðurspám eins og ég sé núna vegna stormsins,“ sagði Ige.

Í gær hvatti hann íbúa til þess að safna vistum fyrir um vikutímabil. Þá sagði hann að skrifstofur stjórnvalda yrðu lokaðar í dag og á morgun vegna veðurofsans, að því er fram kemur á vef CNN

David Ige, ríkisstjóri Hawaii, lýsti yfir neyðarástandi á þriðjudag.
David Ige, ríkisstjóri Hawaii, lýsti yfir neyðarástandi á þriðjudag. AFP

„Ríkið mun verða fyrir miklu áfalli,“ sagði Jeff Byard aðstoðarumsjónarmaður bandarísku almannavarnastofnunarinnar (FEMA). „Við búumst við því að samfélög verði einangruð vegna rigningarinnar og að fjarskipti verði gloppótt,“ sagði Byard.

Haf- og veðurstofan hefur lýst því yfir að búast megi við að auga fellibyljarins fari nálægt eða yfir aðaleyjur Hawaii síðar í dag eða á morgun.

Fellibyljir ná sjaldnast að landi á Hawaii en síðasti ofsastormur átti sér stað þegar fellibylurinn Iniki skall á eyjunum árið 1992 og varð sex manns að bana. 

Haf- og veðurstofan hefur lýst því yfir að búast megi …
Haf- og veðurstofan hefur lýst því yfir að búast megi við að auga fellibyljarins fari nálægt eða yfir aðaleyjur Hawaii síðar í dag eða á morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert