Reyna að komast til Perú meðan skilríki gilda

Venesúelabúar sem ætla að flytja úr landi til Perú eru nú að flýta sér að komast til landsins áður en nýjar reglur, sem krefjast þess að þeir hafi gilt vegabréf, taka gildi á laugardag. BBC greinir frá.

Til þessa hafa almenn skilríki dugað Venesúelabúum til að komast til Perú. Margir hafa árum saman beðið eftir að fá vegabréf og hafa yfirvöld kennt „mafíunni“ innan skráningarkerfisins um tafir í útgáfu.

Rúmlega tvær milljónir Venesúelabúa hafa flúið land frá 2014 og er fólk að flýja efnahagskreppuna sem hefur leitt til skorts á matvælum, lyfjum og öðrum nauðsynjum. Segjast margir hafa gripið til þessa ráðs af því að þeir komist ekki í aðgerð, eða að þeir fái ekki nauðsynlega læknisaðstoð.

Filippo Grandi, yfirmaður flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, hvatti í dag stjórnvöld í Perú og Ekvador, þar sem sambærilegar reglur tóku gildi um síðustu helgi, að „halda áfram að veita þeim sem þurfi á alþjóðlegri vernd að halda öryggi og leyfa þeim að leita hælis.“

Veiti sérstaka „mannúðarvegabréfsáritun“

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna hafa 26.000 Venesúelabúar komið til Perú frá 2017, en Eduardo Sevilla, yfirmaður innflytjendamála í Perú, segir töluna mun hærri. Um 400.000 Venesúelabúar hafist nú við í Perú.

Þá sagði César Villanueva, forsætisráðherra Perú, að krafan um gilt vegabréf fæli ekki í sér að yfirvöld í Perú væru að loka á hælisleitendur frá Venesúela. Almenn skilríki veittu hins vegar ekki nægar upplýsingar og auðvelt væri að falsa þau. Néstor Popolizio, utanríkisráðherra Perú, sagði yfirvöld í landinu munu gefa út sérstaka „mannúðarvegabréfsáritun“ til Venesúela í „sérstökum“ tilfellum, til að mynda fyrir eldri borgara, ófrískar konur og ung börn.

Þeir geti sótt um slíka vegabréfsáritun á ræðismannsskrifstofum Perú í Venesúela, Kólumbíu, Ekvador og jafnvel á landamærunum við Tumbes.

„Ég kom hingað vegna þeirrar miklu fátæktar sem við Venesúelabúar búum við í Venesúela vegna efnahagskreppunnar. Ég kom í leit að betra lífi og til að geta hjálpað fjölskyldu minni,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Mauricio Aparicio sem flutti frá Venesúela til Perú. „Faðir minn er með magakrabbamein og eins og þið vitið þá er ekki hægt að finna lyf, eða ef að þau finnast þá eru þau mjög dýr.“

Hundruð Venesúelabúa leggja það á sig að fara fótgangandi til Perú, þar sem þeir eiga ekki fé fyrir rútufarinu. Yfirvöld í Ekvador hafa þá lagt til fjölda langferðabíla til að flytja Venesúelabúa í gegnum landið og til Perú.

Maly Avilés var um borð í einni slíkri rútu. „Við erum á leið til Perú. Það er ekki hægt að snúa til baka núna. Að fara aftur til Venesúela myndi jafngilda sjálfsvígi.“

Venesúelabúar á leið yfir landamærin til Kólumbíu. Yfirvöld í Kólumbíu ...
Venesúelabúar á leið yfir landamærin til Kólumbíu. Yfirvöld í Kólumbíu hafa lýst yfir áhyggjum af hertum vegabréfsreglum í Ekvador. Sams konar reglur munu taka gildi í Perú um helgina. AFP
mbl.is
LAND ROVER DISCOVERY 3 S, sjálfsk., disel, 7 manna
Til sölu LAND ROVER DISCOVERY 3 S, sjálfskiptur, dísel, 7 manna ekinn 204.000 km...
Vantar Trampólín
Viltu lostna við Trampólínið þitt, kem og tek það niður ef vill... upp. 8986033...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Sjónvarpsskeinkur úr eik
Til sölu vel með farinn sjónvarpsskeinkur úr eik. L:240, D:58, H:53 Verð 20 þús....