Fékk Pompeo til að hætta við Norður-Kóreuferð

Tilgangurinn ferðarinnar var að taka næsta skref í kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu.
Tilgangurinn ferðarinnar var að taka næsta skref í kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fékk Mike Pompeo, utanríkisráðherra landsins, til að hætta við fyrirhugaða ferð sína til Norður-Kóreu. Þá skaut hann fast á Kína fyrir að hafa dregið úr viðleitni til að aðstoða við afvopnavæðingu Norður-Kóreu. AFP-fréttastofan greinir frá.

Pompeo hafði tilkynnt að hann hygðist ferðast til Norður-Kóreu í næstu viku til að taka næsta skref í fullri kjarnorkuafvopnun ríksins. Um hefði verið að ræða fjórðu heimsókn utanríkisráðherrans til Norður-Kóreu, en þá aðra síðan leiðtogafundur Trump og Kim Jong-un átti sér stað 12. júní síðastliðinn.

„Ég bað Mike Pompeo utanríkisráðherra um að fara ekki til Norður-Kóreu að þessu sinni því mér finnst við ekki vera að ná fullnægjandi árangri í afvopnavæðingu Kóreuskagans,“ skrifaði Trump á Twitter.

„Við þetta má bæta að vegna erfiðrar stöðu í viðskiptum við Kína tel ég stjórnvöld þar í landi ekki vera að aðstoða okkur við það ferli að kjarnorkuafvopnavæða Kóreuskagann, líkt og þeir höfðu verið að gera,“ skrifaði forsetinn jafnframt.

Skömmu síðar bætti hann við öðru tísti þar sem fram kom að Pompeo myndi engu að síður fara til Norður-Kóreu í náinni framtíð. En væntanlega eftir að viðskiptadeilan við Kína væri leyst. „Þangað til sendi ég hlýjar kveðjur til leiðtogans Kim. Ég hlakka til að hitta hann fljótlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert