Voru að flýja átök er þau létust

Syrgjendur í fjöldaútför fyrir börnin 40 sem létust er loftárás …
Syrgjendur í fjöldaútför fyrir börnin 40 sem létust er loftárás var gerð á rútu sem þau ferðuðust með. AFP

Mark Lowock, yfirmaður mannréttindamála Sameinuðu þjóðanna, hefur fordæmt árás hernaðarbandalags undir forystu Sádi-Araba á hafnarborgina Hudaydah í Jemen í gær. 22 börn hið minnsta og fjórar konur létust í árásinni, en fólkið var að flýja átök í al-Durayhimi héraðinu í Hudaydah þegar bíll þeirra varð fyrir árás að því er BBC greinir frá.

Fjögur börn til viðbótar létust í annarri loftárás þennan sama dag að sögn Lowcock og stutt er síðan 40 börn fórust er loftárás var gerð á rútu sem þau ferðuðust með.

Hernaðarbandalagið undir stjórn Sádi-Araba styður útlagastjórn Jemen, sem á í stríði við uppreisnarmenn Húta, hefur enn ekki tjáð sig um þessi síðustu dauðsföll. Það hefur hins vegar varið árásina á rútuna fyrr í mánuðinum og sagt gjörðir sínar „lögmætar“.

Þá fullyrðir bandalagið að almennir borgarar séu aldrei skotmarkið, en mannréttindasamtök hafa sakað það um að sprengja markaði, skóla, sjúkrahús og íbúðahverfi.

Fréttum af árásinni í gær hafa fylgt myndir sem sagðar eru af fórnarlömbum árásarinnar. Lowcock staðfesti í yfirlýsingu í dag að fólkið hefði verið að flýja átök er það varð fyrir árásinni. Hann hvatti því næst til óháðrar rannsóknar á loftárásunum.

Í skýrslu sem að mannréttindasamtökin Human Rights Watch birti í dag er hernaðarbandalagið sakað um að bregðast því að standa fyrir trúlegum rannsóknum á slíkum atvikum.

Árásin í gær hefur þegar verið fordæmd af Unicef, Save the Children og öðrum alþjóðlegum hjálparsamtökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert