Minnka vægi ofurkjörmanna

Reglum um ofurkjörmenn (e. superdelegates) Demókrataflokksins í Bandaríkjunum hefur verið …
Reglum um ofurkjörmenn (e. superdelegates) Demókrataflokksins í Bandaríkjunum hefur verið breytt og vægi atkvæða þeirra í forkosningum um forsetaefni flokksins minnkað. AFP

Landsnefnd Demókrataflokksins í Bandaríkjunum samþykkti í gær að minnka vægi svokallaðra ofurkjörmanna (e. superdelegates) við val á frambjóðanda flokksins í forsetakosningum. Breytingin er gerð í þeim tilgangi að auka gagnsæi og sanngirni við val á forsetaefni flokksins.

Margir flokksmenn demókrata eru enn í sárum eftir forkosningarnar 2016 þegar Bernie Sanders laut í lægra haldi gegn Hillary Clinton, en Clinton fékk flest atkvæði ofurkjörmanna í forkosningunum.

Í breytingunni felst að ofurkjörmenn geta ekki greitt atkvæði um forsetaefni í fyrstu umferð flokksþingsins, en úrslit ráðast oftast í fyrstu umferð. Ef það tekst hins vegar ekki gefst ofurkjörmönnum kostur á að greiða atkvæði í seinni umferðum.

Atkvæði í vali á forsetaefni Demókrataflokksins hefur hingað til verið tvískipt. Annars vegar sem atkvæði fulltrúa sem valdir eru í forvölum flokksins í ríkjum Bandaríkjanna og eru þeir skuldbundnir af vilja kjósenda. Hins vegar eru það ofurkjörmennirnir sem ráða sjálfir hvernig þeir nýta atkvæði sitt.

Þegar forval flokksins fyrir síðustu forsetakosningar er skoðað sést að Clinton hefði sigrað, hvort sem ofurkjörmennirnir hefðu nýtt atkvæði sitt eða ekki. Stuðningsmenn Sanders voru hins vegar þeirrar skoðunar að stuðningur ofurkjörmannanna við Clinton hefði ýtt undir ímynd hennar að hún væri ósigrandi. Stuðningsmenn Sanders fögnuðu því breytingunni innilega.

Bernie Sanders laut í lægra haldi gegn Hillary Clinton í …
Bernie Sanders laut í lægra haldi gegn Hillary Clinton í forkosningum Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert