Dómsuppkvaðningu frestað um viku

AFP

Dómstóll í Búrma frestaði í dag dómsuppkvaðningu yfir tveimur fréttamönnum Reuters sem sakaðir eru um að hafa brotið lög er varða ríkisleyndarmál með umfjöllunum um fjöldamorð á rohingjum í landinu.

Fréttamennirnir Wa Lone  og Kyaw Soe Oo hafa verið í haldi í Insein-fangelsinu síðan í desember en þeir unnu að rannsókn á morðum á tíu rohingjum í Rakhine-héraði í september í fyrra.

Fréttamönnunum var boðið í mat með lögreglu í Yangon, þeim afhent einhver gögn og þeir síðan handteknir þegar þeir yfirgáfu matarboðið. Var þeim gefið að sök að hafa í fórum sínum leyniskjöl varðandi aðgerðir ríkisins á svæðinu.

Fréttamennirnir voru ákærðir fyrir brot á meðferð ríkisleyndarmála og ef þeir verða fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér allt að 14 ára fangelsi. 

Héraðsdómari greindi hins vegar frá því í morgun að dómsuppkvaðningu hafi verið frestað um viku vegna veikinda dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert