Þungorðir í garð McCain

Rússneskir fjölmiðlar hliðhollir stjórnvöldum hafa ekki dregið úr gagnrýni sinni á John McCain sem lést úr krabbameini um helgina. Segja þeir hann helsta hugmyndasmið „Rússagrýlunnar“.

McCain skapraunaði Rússum oft með skoðunum sínum en hann fór aldrei leynt með stuðning sinn við leiðtoga fyrrverandi ríkja Sovétríkjanna sem voru hliðhollir vestrænum ríkjum. Má þar nefna Georgíu og Úkraínu. Jafnframt studdi hann refsiaðgerðir gagnvart Rússum vegna íhlutunar þeirra á Krímskaga með ráðum og dáð.

Í frétt Rossiya 1-sjónvarpsstöðvarinnar var sagt að McCain hafi verið helsta táknmynd Rússagrýlunnar og að hann hafi aldrei þolað Rússum að reka sjálfstæða utanríkisstefnu. Leiðarahöfundur Pravda tekur í svipaðan streng. Þar var McCain jafnframt sakaður um að ljúga til um að hafa verið pyntaður þegar hann var fangi í Víetnamstríðinu og að hann vonaðist til þess að McCain brynni nú í helvíti.

„McCain öldungadeildarþingmaður elskaði loga stríðs. Við skulum vona að hann fái næga loga þar sem sál hans hvílist nú,“ segir meðal annars í leiðara Pravda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert