Áreitni verður saknæm

Marie Laguerre.
Marie Laguerre. AFP

Lögreglan í París er með mann í haldi sem er sakaður um að hafa sýnt konu áreitni á götu úti í borginni fyrir mánuði. Konan, Marie Laguerre, birti myndskeið úr öryggismyndavél á samfélagsmiðlum af árásinni og vakti það mikla athygli. Auk áreitninnar beitti hann hana ofbeldi skammt frá kaffihúsi í 19. hverfi, við Boulevard de la Villette, um hábjartan dag.

Eftir að Laguerre, sem er 22 ára gömul, birti myndskeiðið ákvað saksóknaraembætti Parísar að hefja rannsókn á málinu. Í kjölfarið fór af stað vinna við gerð frumvarps til laga um að þeir sem gerast sekir um áreitni úti á götu eigi yfir höfði sér sekt. Jafnréttisráðherra Frakklands,  Marlène Schiappa, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Hún fagnar mjög fréttum af handtöku mannsins og segir að franska lögreglan verði væntanlega sú fyrsta sem ekki lætur slíkt ofbeldi óáreitt. Þar vísar hún til þess að áreitni verður saknæm hvort heldur sem hún er líkamleg eða munnleg.

Marie Laguerre segir að áreitnin hafi hafist með ummælum mannsins og kynferðislegum hljóðum sem hann gaf frá sér. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún verði fyrir áreitni af þessu tagi og í þetta skiptið hafi hún einfaldlega fengið nóg og sagt manninum að halda kjafti. Eftir að þau höfðu munnhöggvist um stund sló hann hana í andlitið af öllu afli.

Laguerre er létt yfir því að maðurinn hafi verið handtekinn. „Ég var heppin því umfjöllun fjölmiðla varð til þess að málið fékk athygli.“

Maðurinn, Firas M, hafði leitað sér aðstoðar á geðdeild sjúkrahúss í borginni og var handtekinn þegar hann yfirgaf sjúkrahúsið. Firas M, sem er 25 ára gamall, hafði verið vísað á sjúkrahúsið út af öðru dómsmáli og þannig tókst lögreglu að rekja slóð hans á sjúkrahúsið. 

Samkvæmt upplýsingum Le Parisien er hann afar vanstilltur og hefur ítrekað beitt ofbeldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert