Ekki eðlilegt að slá konur

Ofbeldi gegn konum er mikið vandamál í Brasilíu, en karlrembumenning …
Ofbeldi gegn konum er mikið vandamál í Brasilíu, en karlrembumenning er þar landlæg. AFP

Þegar Rafael Sousa [ekki hans rétta nafn] komst að því að kona hans hafði verið að ræða samband þeirra við karlkyns samstarfsmenn sína missti hann stjórn á skapi sínu. Eftir að hafa öskrað á hana tímunum saman lamdi hann hana þar sem hún lá á gólfinu.

Sousa hafði rekið augun í skilaboð á síma konu sinnar og bar þau upp á hana. „Við höfðum átt við vandamál að etja, en þetta var kveikjan,“ segir Sousa við Guardian. „Við rifumst alla nóttina. Ég hafði aldrei hugleitt að leggja hendur á hana, en rétt fyrir dögun sló ég hana, togaði í hár hennar og sparkaði í hana.“

Bæði flúðu heimilið. Sousa fór til vinar síns en eiginkonan til fjölskyldu sinnar. Það tók Sousa allan daginn að róa sig og átta sig á að hann hefði gert eitthvað rangt. Nú er hann fullur eftirsjár er hann rifjar upp gjörðir sínar. Konan óskaði hins vegar eftir skilnaði, kærði hann og lagði fram beiðni um nálgunarbann.

Ofbeldisvandinn gegnsýrir öll lög brasilísks þjóðfélags að sögn Gracimeri Gaviorno, …
Ofbeldisvandinn gegnsýrir öll lög brasilísks þjóðfélags að sögn Gracimeri Gaviorno, lögregluforingja í Espírito Santo, en um þriðjungur kvenna í landinu hefur verið beittur ofbeldi. AFP

Hélt konu sinni fanginni í 12 ár

Sousa nemur nú endurskoðun. Hann ólst upp og býr enn í Serra, sem er á lista yfir þau bæjarfélög Brasilíu þar sem morðtíðnin er hæst. Á árabilinu 2005-2012 voru hvergi fleiri konur myrtar í allri Brasilíu en í Espírito Santo, fylkinu sem Serra er í. Síðan þá hefur það verið á lista yfir fimm efstu fylkin.

Þriðjungur allra kvenna sögðust hafa verið beittar ofbeldi í skoðanakönnun sem náði til Brasilíu allrar í fyrra. Hafði sumum verið hótað, en aðrar höfðu orðið fyrir barsmíðum og jafnvel sætt morðtilraun.

Vandinn gegnsýrir öll lögð þjóðfélagsins, segir Gracimeri Gaviorno, lögregluforingi í Espírito Santo. Hún rifjar upp mál konu sem var gift skartgripasala og bjó í ríkra manna hverfi. Skartgripasalinn hélt henni og tveimur vannærðum börnum hennar föngnum í 12 ár, er konan náði loks að flýja og hafði samband við lögreglu. „Þegar hún kom fékk ég áfall við að sjá brunaförin á henni eftir sígarettur og sárin eftir járnhlekki á fótum hennar,“ sagði Gaviorno. Maðurinn var handtekinn og dæmdur til 109 ára fangelsisvistar. Hann var síðan látinn laus af heilsufarsástæðum árið 2010, en var svo handtekinn þremur árum síðar fyrir sama glæp.

Þetta er aðeins eitt fjölmargra dæma þar sem fórnarlömbin eru fleiri en eitt og segir Gaviorno marga menn brjóta ítrekað af sér á meðan þeir bíði, stundum árum saman, eftir að mál þeirra fari fyrir rétt.

Ekki hægt að bíða eftir dómskerfinu

Gaviorno ákvað því að gera eitthvað í málinu. „Maður getur ekki bara beðið með krosslagðar hendur eftir að dómskerfið ákveði að gera eitthvað í málinu,“ segir hún.

Árið 2016 hóf hún þess vegna að þróa verkefnið Homem que é Homem í samstarfi við sálfræðinga, félagsfræðinga og aðrar lögregludeildir, en um er að ræða endurhæfingarnámskeið fyrir ofbeldismenn.

Allir sem handteknir eru fyrir að beita konur ofbeldi verða að sitja kynningartíma um námskeiðið, þó að mönnunum sé síðan í sjálfsvald sett hvort þeir sitji námskeiðið. 

Enginn afsláttur fæst af dómi með því að ljúka námskeiðinu. Það er þó hægt að leggja það fyrir dómara í von um mildari dóm, sem eins konar karaktervitni.

Alls eru haldin sjö námskeið árlega og er hvert námskeið fimm vikna langt með fjórum 90 mínútna tímum fjórum sinnum í hverri viku.

Brasilíska lögreglan að störfum.
Brasilíska lögreglan að störfum. AFP

Telja það enn konunni að kenna

Ana Paula Milani, sálfræðingur hjá lögreglunni, er meðal þeirra sem standa að námskeiðinu. „Ég byrja á að útskýra að það sé ekki eðlilegt að slá konu, það sé glæpur og að námskeiðinu sé ætlað að hjálpa þeim, segir hún. „Meirihluti karlanna veit ekki af hverju þeir eru þarna og jafnvel eftir að hafa setið fyrirlesturinn eru sumir enn þeirrar skoðunar að þetta hafi verið konunni að kenna.“

Um 60 karlar mæta í kynningartímann á hverju námskeiði, um 20 fallast síðan á að sitja námskeiðið allt og 15 ljúka því.

Hóptímar eru byggðir upp á svipaðan hátt og AA-fundir. Þátttakendur sitja í hring og umræður snúast um hlutverk kynjanna í samfélaginu. Þá er hugtakið karlmennska skoðað, en karlremba er landlæg í Brasilíu. Þá er líka rætt um það hvers vegna karlar séu líklegri til að neyta eiturlyfja og taka eigið líf.

Einnig er fjallað um það hvernig eigi að bregðast við deilum án þess að grípa til ofbeldis. Lokafundurinn snýst síðan um að byggja upp traust á ný og eiga í sambandi.

Verkefnið þykir skila góðum árangri. Fyrsta árið sem það var í gangi brutu 6% þátttakenda af sér aftur, annað árið datt hlutfallið niður í 3% og í fyrra var talan komin í 2%. Þrjú önnur fylki hafa fylgt í kjölfarið og til stendur að bjóða upp á sams konar verkefni á fleiri stöðum.

Það olli mörgum Brasilíumönnum miklu áfalli að sjá myndir úr …
Það olli mörgum Brasilíumönnum miklu áfalli að sjá myndir úr öryggismyndavélum sem sýna Luis Felipe Manvailer misþyrma eiginkonu sinni Tatiane Spitzner í lyftu og ganga því næst á brott. Hann á nú morðákæru yfir höfði sér. AFP

Tortrygginn í garð lögreglu í fyrstu

Sousa er einn þeirra sem lauk námskeiðinu. Í fyrstu var hann tortrygginn á að taka þátt í námskeiði á vegum lögreglunnar, sem hann taldi vera meiri tálmun af en aðstoð í Serra. „Almennt er hugmyndin sú að lögregla handtaki fólk bara og flytji það á brott. Hérna var lögreglan að reyna að hjálpa. Ég óttaðist að þetta snerist um ásakanir, en upplifði mig þess í stað velkominn. Ég hitti þar menn sem höfðu gengið í gegnum það sama og ég lærði mikið. Að besta leiðin til að finna lausn er með samræðum,“ sagði hann.

Hann hefur ekki verið í sambandi eftir að hann lagði hendur á konu sína, en þau ræðast nú við og hann hittir hana tvisvar í mánuði. „Ofbeldi gegn konum er mikið vandamál í Brasilíu af því að það er svo mikil karlrembumenning hér. Ég er lifandi sönnun þess. Ég er ekki ofbeldishneigður – ég ólst upp í ofbeldisfullu hverfi og var staðráðinn í að vera ekki þannig. Samt framdi ég þennan glæp og það geta allir aðrir gert líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert