„Eins og að vera slegin utan undir“

Aly Raisman.
Aly Raisman. AFP

Fórnarlömb Larry Nassar, fyrrverandi læknis bandaríska landsliðsins í fimleikum, sem misþyrmdi hundruðum stúlkna og kvenna kynferðislega, gagnrýna harðlega að þjálfari sem varði Nassar í upphafi hafi fengið góða stöðu innan fimleikasambandsins.

Bandaríska fimleikasambandið ákvað á þriðjudag að Mary Lee Tracy yrði stjórnandi afrekshóps.

Nassar var dæmdur í 40 til 175 ára fangelsi en hann misþyrmdi hundruðum stúlkna og kvenna kyn­ferðis­lega um ára­tuga­skeið, þar á meðal konum sem hafa unnið gullverðlaun á Ólympíuleikum.

Gagnrýnendur ráðningar Tracy hafa bent á orð hennar í desember 2016, þegar Nassar var sakaður um að hafa misnotað yfir 50 konur.

„Ólympíufararnir hafa allir unnið með Nassar. Hann hefur verndað þær, séð um þær og unnið með mér og foreldrum þeirra. Hann hefur verið frábær,“ sagði Tracy þá.

Nassar misnotaði fjölda stúlkna og kvenna sem hann þjálfaði.
Nassar misnotaði fjölda stúlkna og kvenna sem hann þjálfaði. AFP

Aly Raisman, sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum 2012 og 2016 og var á meðal fórnarlamba Nassars, er gríðarlega óánægð með ráðningu Tracy.

„Fimleikasambandið hefur ráðið manneskju sem, að mínu mati, studdi Nassar, álasaði eftirlifendum og hefur ekki sýnt neinn vilja til að læra neitt af þessu máli,“ skrifaði Raisman á Twitter. Hún hefur áður sagt að hún sé ekki lengur fórnarlamb, heldur hafi hún lifað af.

„Þetta er eins og að vera slegin utan undir fyrir þær sem komust af og er enn frekari sönnun þess að ekkert hefur breyst hjá fimleikasambandinu. Þvílík vonbrigði!“ bætti Raisman við.

Tracy sagði á Twitter að Nassar hefði gabbað hana. „Ég finn til með fórnarlömbunum og því sem þær hafa þurft að ganga í gegnum. Ég var líka göbbuð! Von mín er sú að við sköpum öruggt umhverfi fyrir íþróttafólk og þjálfara í framtíðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert