Réttlæta rohingja-deiluna með fölsuðum myndum

Yfirmenn í búrmíska hernum. Falsaðar ljósmyndir eru notaðar til að …
Yfirmenn í búrmíska hernum. Falsaðar ljósmyndir eru notaðar til að endurrita sögu rohingja-deilunnar. AFP

Falsaðar ljósmyndir eru notaðar til að endurrita sögu rohingja-deilunnar í Búrma (Mijanmar) í bók sem áróðursdeild búrmíska hersins gaf nýlega út. Þar eru m.a. notaðar ljósmyndir frá Tansaníu og Bangladess og þær sagðir sýna flutninga rohingja-múslima til Búrma, en rohingjar líta á sig sem frumbyggja í Rakhine-héraði.

Segir í frétt Guardian um málið að bókinni virðist vera ætlað að réttlæta morð á þúsundum rohingja í aðgerðum hersins í Rakhine-héraði í fyrra sem Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar fordæmt sem þjóðarmorð.

Bókin er 117 blaðsíður og var gefin út af útgáfu- og markaðsdeild hersins í júlí á þessu ári. Myndirnar eru að sögn hersins „ljósmyndaheimildir“. Skoðun Reuters-fréttastofunnar á myndunum leiðir hins vegar í ljós að að um fölsun er að ræða á að minnsta kosti þremur af átta sögulegum ljósmyndum í bókinni.

Sagðir vera að koma en eru að flýja

Þannig eru í tveimur tilfellum myndir sem fullyrt er að hafi verið teknar í Rakine annars vegar ljósmynd frá Bangladess og hins vegar frá Tansaníu. Þá er þriðja myndin sem sögð er sýna rohingja koma til Búrma í raun mynd sem sýnir þá reyna að flýja frá Búrma yfir til Bangladess.

Ein mynd í bókinni sýnir mann með garðyrkjuverkfæri standa yfir líkum tveggja manna og er hún sögð sýna búddista sem rohingjar hafi myrt í óeirðum á fimmta áratug síðustu aldar. Að sögn Reuters var myndin hins vegar tekin í sjálfstæðisstríði Bangladess árið 1971 er hundruð þúsunda Bangladessbúa voru myrt af pakistönskum hersveitum.

Önnur mynd, sem sögð er vera frá 1948, sýnir hóp hokinna manna marsera. „Bengalar komu óboðnir til landsins eftir að breska heimsveldið tók yfir hluta Búrma,“ segir í myndatextanum, en yfirvöld í Búrma kalla rohingja bengala. Reuters segir myndina hins vegar vera svarthvíta og breytta útgáfu af flóttamönnum að flýja þjóðarmorð í Rúanda árið 1996.

Þriðja myndin, sem er kornótt og virðist gömul, og sögð er sýna rohingja koma sjóleiðina til Búrma, var hins vegar tekin 2015 og sýnir þá flýja frá Búrma til Bangladess.

Ekki búinn að lesa bókina

Talsmaður búrmísku stjórnarinnar, Zaw Htay, hefur ekki viljað tjá sig um málið og upplýsingamálaráðherrann U Myo Myint Maung segist ekki hafa lesið bókina, sem m.a. fjallar um aðgerðirnar í Rakhine í fyrra frá sjónarhóli hersins.

Rúmlega 700.000 rohingjar hafa flúið yfir til Bangladess frá því í ágúst í fyrra og hafa Sameinuðu þjóðirnar og fjöldi mannréttindasamtaka greint frá fjöldamorðum, nauðgunum og íkveikjum á rohingjum í Rakhine.

Bókin er til sölu bókaverslunum í Yangon, höfuðborg Búrma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert