Bjartsýni um Brexit-samning

Dominic Raab og Michael Barnier á blaðamannafundinum í Brussel í …
Dominic Raab og Michael Barnier á blaðamannafundinum í Brussel í dag. AFP

Ráðherra Brexit-mála í ríkisstjórn Theresu May, Dominic Raab, segist bjartsýnn á að samningar um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu náist fljótlega. Raunar segir hann að stefnt sé að því að samkomulag liggi fyrir í október, en að enn sé mikið verk óunnið.

Raab og Michael Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðunum héldu sameiginlegan blaðamannafund um hádegi í dag, þar sem þeir fóru yfir gang viðræðna undanfarið, en í dag fór fram sex klukkustundalöng samningalota í Brussel.

Á blaðamannafundinum var Raab spurður út í hversu háan veðmálastuðul hann myndi setja á það að samningar næðust. Því svaraði hann með þessum orðum: „Ég er samningamaður, en ekki veðmálamaður.“

„Ég er samningamaður, en ekki veðmálamaður,“ sagði Raab aðspurður um …
„Ég er samningamaður, en ekki veðmálamaður,“ sagði Raab aðspurður um hvaða stuðull væri á að samningar næðust. AFP

Barnier sagði að það væri „mögulegt“ að komast að samkomulagi í haust, jafnvel áður en leiðtogar Evrópusambandsríkjanna koma saman í Brussel 18. og 19. október, en það gæti þó tafist fram í nóvember.

Náið öryggismálasamstarf

Raab og Barnier sögðu að samninganefndirnar hefðu náð árangri í að ræða hvernig öryggismálasamstarfi yrði háttað, meðal annars með tilliti til þess hvernig Bretland og Evrópusambandsríkin mundu skiptast á upplýsingum um öryggismál.

„Öryggi Evrópu er öryggi Bretlands,“ sagði Raab á blaðamannafundinum, sem bendir til þess að öryggismálasamstarfið verði náið.

Barnier nefndi nokkra ókláraða málaflokka, meðal annars upprunavottanir á matvælum, kjarnorkumálasamstarf, gagnavernd og það hvaða hlutverki æðsti dómstóll Evrópusambandsins ætti að gegna varðandi það að framfylgja Brexit-samkomulaginu.

Landamærin á Írlandi enn óleyst mál

Þá hafa samningsaðilar enn ekki komist að niðurstöðu um það hvernig flæði bæði fólks og varnings á landamærunum á milli Írlands og Norður-Írlands verður háttað, en ESB leggur mikla áherslu á að slá ákveðna varnagla (e. backstop) í þeim málum, ef svo skyldi fara að viðskiptasamningur á milli Breta og ESB skyldi ekki nást áður en af útgöngu verður. Án þessa varnagla, sagði Barnier, verður ekkert samkomulag.

Raab tók undir það að tryggja þyrfti að landamærin á milli ríkjanna væru starfhæf, en bæði Evrópusambandið og Bretar vilja koma í veg fyrir að setja þurfi upp hörð landamæri, með landamæramannvirkjum og vegabréfaskoðun á milli Írlands og Norður-Írlands.

Barnier sagði að ESB og Bretland væru að vinna „fordæmalausu samstarfi“ til framtíðar sem myndi innihalda víðfeman viðskiptasamning og náið samstarf innan ýmissa geira, til dæmis hvað varðar flug, öryggismál og rannsóknir.

„Svona samstarf með þriðja ríki er fordæmalaust,“ sagði Barnier, en bætti við að frumskilyrði fyrir slíku samstarfi til framtíðar væri hnökralaus útganga Breta úr sambandinu.

Bein textalýsing Sky af blaðamannafundinum

Frétt Reuters um fundinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert