Lula má ekki bjóða fram

Luiz Inacio Lula da Silva.
Luiz Inacio Lula da Silva. AFP

Luiz Inácio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, má ekki bjóða sig fram til forseta landsins í október. Meirihluti dómara við æðsta dómstól landsins komst að þeirri niðurstöðu seint í gærkvöldi en ástæðan er fangelsisvist vegna spillingar.

Lula, sem er 72 ára gamall, var dæmdur í tólf ára fangelsi í júlí í fyrra en hann var forseti á árunum 2003 til 2010 og naut mikilla vinsælda. Verkamannaflokkurinn mun gera sitt til að Lula fái að bjóða sig fram en samkvæmt erlendum miðlum verður dómnum áfrýjað.

Það tók margar klukkustundir fyrir fjóra dómara af sjö að komast að þeirri niðurstöðu að Lula sé óheimilt að bjóða sig fram í október.

Fyrr­ver­andi for­set­inn hef­ur ávallt haldið fram sak­leysi sínu og seg­ir að póli­tísk­ir and­stæðing­ar vilji hann bak við lás og slá. 

Lula er stofn­andi Verka­manna­flokks­ins en á hægri væng stjórn­mál­anna er litið á hann sem hold­gerv­ing spill­ing­ar sem grass­eri meðal póli­tískr­ar yf­ir­stétt­ar lands­ins. 

Vinstri­menn segja hins veg­ar að Lula hafi staðið sig mjög vel í vel­ferðar­mál­um á valdatíð sinni og komið tug­um millj­óna manna úr fá­tækt. Spill­ing­ar­málið er í þeirra huga blekk­ing­ar­leik­ur sem er til þess fall­inn að firra spillta stjórn­mála­menn á hægri vængn­um ábyrgð, m.a. nú­ver­andi for­seta, Michel Temer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert