Vill nota EFTA tímabundið

AFP

Breski þingmaðurinn Nick Boles hefur kallað eftir því Bretland gerist tímabundið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) eftir að landið yfirgefur Evrópusambandið sem gert er ráð fyrir að gerist í lok mars á næsta ári.

Þetta kemur fram í grein sem Boles ritar í breska dagblaðið Daily Telegraph. en eins og staðan er í dag eiga Ísland, Noregur og Liechtenstein aðild að EES í gegnum EFTA, Boles, sem er fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra Bretlands, studdi áður tillögu forsætisráðherrans sem hún hefur lagt áherslu á og kennd er við Chequers, sveitasetur ráðherrans, en segir nú að sú leið þýddi niðurlægingu fyrir Breta.

Þingmaðurinn segist vilja sjá Bretland gerast tímabundið aðili að EFTA og EES í gegnum samtökin sem veiti landinu svigrúm til þess að semja um varanlegan fríverslunarsamning við Evrópusambandið í anda samnings sambandsins við Kanada.

Boles segist telja þetta einu leiðina úr þessu til þess að ná góðri niðurstöðu í viðræðum við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands í framkvæmd. Hafa þurfi hins vegar hraðar hendur. Hrinda þurfi þessu í framkvæmd fyrir áramót. Annars verði það of seint.

Hugmynd Boles er þó umdeild. Ríkisstjórnin hefur þegar hafnað því að Bretland gerist aðili að EES í gegnum EFTA og sama á við um breska þingið. Ýmsir þingmenn Íhaldsflokksins óttast ennfremur að hugmynd hans gæti fest Bretland varanlega í EES.

Tillaga May hefur átt undir högg að sækja síðan hún var kynnt fyrr á þessu ári. Ekki síst innan Íhaldsflokks hennar. Tugir þingmanna flokksins hafa lýst opinberlega yfir andstöðu við tillöguna og tveir ráðherrar, Boris Johnson og David Davis, sögðu af sér vegna hennar.

Grein Boles þykir enn eitt áfallið í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert