Eldur í þjóðminjasafni Brasilíu

Frá eldsvoðanum í þjóðminjasafninu.
Frá eldsvoðanum í þjóðminjasafninu. AFP

Mikill eldsvoði varð í þjóðminjasafni Brasilíu í borginni  Rio de Janeiro seint í gærkvöldi. Forseti landsins segir atburðinn „sorglegan“ þar sem mikil þekking og þjóðararfur hafi tapast.

Um tuttugu deildir slökkviliðsmanna börðust við að slökkva eldinn, sem kom upp um hálfellefuleytið í gærkvöldi. Fimm klukkustundum síðar hafði þeim tekist að mestu að ráða niðurlögum eldsins, sem hafði læst sig í mörg hundruð herbergi byggingarinnar.

Safnið er í norðurhluta borgarinnar, skammt frá knattspyrnuvellinum Maracana.

Talsmaður slökkviliðsins í Rio de Janeiro sagði við AFP-fréttastofuna að eldurinn hafi breiðst mjög hratt út enda hafi verið mikið af eldfimu efni í byggingunni.

Ekki er vitað til þess að neinn hafi látið lífið í eldsvoðanum. Eldsupptök eru óljós sem stendur. 

Safnið var stofnað árið 1818 af Jao VI, konungi Brasilíu, og er talið vera gimsteinn í brasilískri menningu með yfir 20 milljónir merkra hluta.

Slökkviliðsmenn reyna að slökkve eldinn.
Slökkviliðsmenn reyna að slökkve eldinn. AFP

„Þetta er sorgardagur fyrir Brasilíu,“ sagði Michel Temer, forseti landsins í yfirlýsingu. „Tvö hundruð ára starf og rannsóknir og þekking hefur tapast,“ sagði hann.

„Tapið sem safnið hefur orðið fyrir er ómetanlegt.“

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert