Amma kærð vegna mynda af bleyjuútbrotum

Félagsmálayfirvöld sögðu ömmunni að skrá og mynda húðvandamál stúlkunnar, m.a. …
Félagsmálayfirvöld sögðu ömmunni að skrá og mynda húðvandamál stúlkunnar, m.a. bleyjuútbrotin. Þau neituðu síðan að skoða myndirnar, þar sem þær gætu talist barnaklám. AFP

Yfirvöld í Leicestershire á Englandi ákærðu konu fyrir barnaklám eftir að hún tók mynd af bleyjuútbrotum á barnabarni sínu. Myndina hafði hún tekið að beiðni starfsmanna félagsmálastofnunar sveitarfélagsins, að því er BBC greinir frá.

Konan hafði lagt fram fjölmargar kvartanir vegna þeirrar umönnunar sem dóttir hennar veitti barninu og var barnið undir eftirliti félagsmálayfirvalda. Skipaði umboðsmaður sveitarfélaga sveitarfélaginu að breyta vinnuferli sínu og greiða konunni 300 pund, rúmlega 40.000 kr., fyrir þjáningarnar sem þetta hefði valdið henni og 200 pund til viðbótar vegna þess ama sem málið hefði valdið henni.

Þá var sveitarfélaginu einnig gert að biðjast fyrirgefningar á að gefa í skyn að amman „gæti verið barnaníðingur“. Hefur vinnulagi sveitarfélagsins nú verið breytt að sögn BBC.

Barnið hafði verið í umsjá móður sinnar og ömmu og var undir eftirliti félagsmálayfirvalda þar sem móðirin hafði látið hjá líða að mæta með hana í þær læknisskoðanir sem henni bar. Af þeim sökum sögðu félagsmálayfirvöld ömmunni að skrá og mynda húðvandamál stúlkunnar, m.a. bleyjuútbrotin. Þau neituðu síðan að skoða myndirnar, þar sem þær gætu talist barnaklám.

Segir í skýrslu umboðsmanns að amman hafi verið í „áfalli“ vegna þessa og að yfirvöld hefðu átt að telja myndirnar „viðeigandi“.

Þá hefði sveitarfélagið einnig átt að bregðast betur við er amman kallaði til lögreglu eftir að heyra barnið gráta á heimili móður sinnar. Er lögregla kom á staðinn voru „óþekktir karlmenn“ á staðnum og fólk að neyta fíkniefna í garðinum. Sagði móðirin lögreglu við þetta tækifæri að ábyrgðin á barnauppeldi væri „yfirþyrmandi“ og var barnið þá sett í umsjá ömmu sinnar um vikutíma.

Þá gagnrýndi umboðsmaður yfirvöld fyrir að hafa ekki rannsakað mar á barninu, né hefði verið fylgst eftir öryggis- og velferðaráætlun eða haldið utan um skráningu á formlegum fundum barnsins með ömmunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert