Rússar varpa sprengjum á Idlib-hérað

Sýrlenskir uppreisnarmenn í Idlib-héraði.
Sýrlenskir uppreisnarmenn í Idlib-héraði. AFP

Rússneskar herþotur vörpuðu sprengjum á Idlib-hérað í Sýrlandi í morgun eftir þriggja vikna hlé.

Rami Abdel Rahman, yfirmaður sýrlensku mannréttindavaktarinnar (Syrian Observatory for Human Rights), greindi frá þessu.

Sprengjum var varpað á þó nokkur svæði undir stjórn hryðjuverkasamtakanna Hayat Tahrir  al-Sham, meðal annars í bænum Jisr al-Shughur.

Einnig féllu sprengjur í bænum Ariha þar sem uppreisnarmenn sem njóta stuðnings Tyrkja dvelja.

Donald Trump Bandaríkjaforseti varaði stjórnvöld í Sýrlandi í gær við því að gera árás á síðasta vígi uppreisnarmanna í Idlib-héraði, með aðstoð Rússa og Írana.

Hann sagði að slík árás geti hrundið af stað „mannlegum harmleik“.

Engar fregnir hafa borist af mannfalli í héraðinu eftir að árásirnar hófust í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert