„Veit að framtíð mín er hér“

Lögreglumaður lætur hælisleitendur fá matvæli og vatn við komuna til ...
Lögreglumaður lætur hælisleitendur fá matvæli og vatn við komuna til Þýskalands. Þýska flóttamannastofnunin hefur hins vegar átt í vanda með að sinna þeim rúmlega milljón hælisleitendum sem komið hafa til landsins sl. þrjú ár og eru biðlistar langir. AFP

Þremur árum eftir að Zaid al-Ahmad flúði stríðsástandið í Írak á hann enn í erfiðleikum með að losna úr skrifræðisvefnum í Berlín.

Ahmad er hópi þeirra hundraða þúsunda hælisleitenda sem leitað hafa hælis í Þýskalandi eftir að Angela Merkel Þýskalandskanslari úrskurðaði í september 2015 að landamæri Þýskalands yrðu opin þeim sem væru að flýja stríð og hörmungar.

Þýska flóttamannastofnunin hefur hins vegar átt í vanda með að sinna þeim rúmlega milljón hælisleitendum sem komið hafa til landsins sl. þrjú ár og eru langir biðlistar eftir lagalegri aðstoð, hælisumsóknum og áfrýjunum. Fjölmargir flóttamenn eru því enn í óvissu með stöðu sína og hvort þeir fái að vera áfram í Þýskalandi nokkrum árum eftir að þeir komu til landsins.

„Ég er búinn að bíða, en það gerist ekkert,“ sagði Ahmad í samtali við AFP.

Hælisleitendi tekur sjálfu með Angelu Merkel í hemsókn hennar á ...
Hælisleitendi tekur sjálfu með Angelu Merkel í hemsókn hennar á skrifstofu flóttamannahjálpar í Berlín í nóvember 2015. Mynd úr safni. BERND VON JUTRCZENKA

Flóttamannastofnunin (BAMF) hafnaði upphaflegri hælisumsókn Ahmads í desember 2016.  Hann áfrýjaði í janúar árið eftir og hefur síðan beðið úrskurðar dómstóla í Berlín, en rétt eins og BAMF er dómskerfið líka yfirfullt vegna mikils málafjölda.

Mistök og illa ígrundaðar ákvarðanir ástæður tafanna

Sumar áfrýjananna eru svipaðar áfrýjun Ahmads, en aðrir eru að óska eftir að framlengja dvalarleyfi sitt. Þau mál sem mest liggur á eru mál þar sem til stendur að vísa fólki úr landi.

Gagnrýnendur segja mistök og illa ígrundaðar ákvarðanir BAMF eina helstu ástæðu tafa í dómskerfinu.

„Þeir réðu fólk sem ekki hefur menntun til að taka á því viðkvæma verkefni að ákvarða framtíð fólks,“ segir Filiz Polat, þingmaður Græningjaflokksins. Þetta hafi leitt til þess að meira en helmingur allra úrskurða BAMF á fyrri hluta þessa árs endi fyrir dómstólum.

Í lok síðasta árs biðu 372.000 áfrýjanir úrskurða dómstóla og voru fjórum sinnum fleiri en 2016 að sögn þýskra stjórnvalda.

Mikil mótmæli voru í borginni Chemnitz eftir að íraskur hælisleitandi ...
Mikil mótmæli voru í borginni Chemnitz eftir að íraskur hælisleitandi stakk mann til bana í borginni. AFP

Í Berlín hafa dómstólar enn ekki tekið á tveimur þriðju hælisumsókna.

Á meðan eru hælisleitendur á borð við Ahmad áfram í óvissu.

„Þetta er stressandi. Ég get ekki verið rólegur,“ segir hann.

Deilir 20 fermetrum með tveimur öðrum

Hælisleitendur fá tímabundið dvalarleyfi í Þýskalandi á meðan þeir bíða úrskurðar dómstóla. Ahmad segir dvalarleyfin þó einungis vera veitt til þriggja eða sex mánaða í senn. Það útilokar hann til að mynda frá almennum leigumarkaði þar sem leigusalar vilja aðeins leigja þeim sem hafa að minnsta kosti árs dvalarleyfi.

Undanfarin tvö ár hefur Ahmad deilt herbergi sem er minna en 20 m2 með tveimur öðrum flóttamönnum í athvarfi. Þeir deila eldhúsi og sameiginlegri stofu með öðrum.

Tafir skrifræðisins leiddu m.a. til þess að íraskur hælisleitandi stakk mann til bana í Chemnitz í austurhluta Þýskalands. Drápið leiddi til mikilla mótmæla í borginni, en búið átti að vera að flytja manninn úr landi til Búlgaríu, þess Evrópuríkis sem hann kom fyrst til. Yfirvöld höfðu hins vegar ekki flutt hann úr landi á tilætluðum tíma að sögn innanríkisráðherrans Horsts Seehofers og urðu þau fyrir vikið að skoða mál mannsins aftur.

Húsnæði fyrir hælisleitendur í Dresden í Þýskaland. Mynd úr safni.
Húsnæði fyrir hælisleitendur í Dresden í Þýskaland. Mynd úr safni. AFP

Dreymir um að læra hjúkrun

Ahmad dreymir um að komast í nám í hjúkrun og á meðan hann bíður ákvörðunar réttarins reynir hann að verða sér úti um menntun sem gerir honum kleift að komast í starfsnám.

Til að láta enda ná saman vinnur hann svo á kvöldin á kaffihúsi.

AFP segir tölur þýskra stjórnvalda benda til þess að einhver bragarbót hafi undanfarið verið gerð á að koma hælisleitendum í vinnu og eru 290.000 hælisleitendur sem komu til Þýskalands eftir 2015 nú komnir með vinnu að sögn þýsku vinnumálastofnunarinnar. Þá fækkaði þeim fjölda hælisleitenda sem reiða sig á aðstoð þýska ríkisins um 36% milli áranna 2016 og 2017.

Ahmad er líka staðráðinn í að eiga nýtt líf í Þýskalandi þrátt fyrir langa bið. „Þegar ég kom til Þýskalands vissi ég ekki hvers var að vænta. Það eina sem skipti máli var að hafa flúið Írak. Núna veit ég hins vegar að framtíð mín er hér,“ segir hann.

mbl.is
Harðviður til húsbygginga
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
Greinakurlari
Greinakurlari sem drifinn er með bensínmótor. Öflugur og meðfærilegur kurlari w...
Málningar- og viðhaldsvinna
Getum bætt við okkur inni- og útiverkefnum. Vönduð vinnubrögð og góð umgengni. T...