Yfirheyrslan leystist upp í glundroða

Hópur mótmælenda klæddi sig upp sem þernurnar úr sögu Margaret …
Hópur mótmælenda klæddi sig upp sem þernurnar úr sögu Margaret Atwood Saga þernunnar. AFP

Yfirheyrslur öldungadeildar bandaríska þingsins yfir Brett Kavanaugh, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti vill sjá verða næsta hæstaréttardómara, leystust í dag upp í glundroða mótmæla að því er BBC greinir frá. Demókratar mótmæltu í þinginu að repúblikanar hindruðu aðgang að skjölum sem snúa að starfi Kavanaughs í Hvíta húsinu fyrir rúmum áratug.

Öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins trufluðu ítrekað yfirheyrslur repúblikanans og formanns nefndarinnar, Chucks Grassleys, og köll heyrðust frá tugum mótmælenda. Einnig kom til ryskinga er þeim var vísað á brott af öryggisvörðum í þinghúsinu.

„Þetta er fyrsta tilnefning til hæstaréttardómara sem ég hef séð breytast í múgæsingu,“ sagði repúblikaninn og öldungadeildarþingmaðurinn John Cornyn. „Það sem við heyrum í er lýðræðið,“ sagði demókratinn og öldungadeildarþingmaðurinn Dick Durbin.

Brett Kavanaugh mætir til yfirheyrslu hjá öldungadeild þingsins.
Brett Kavanaugh mætir til yfirheyrslu hjá öldungadeild þingsins. AFP

Mótmælendur skiptust á að hrópa er nefndarmenn lögðu fyrirspurnir fyrir Kavanaugh. „Þetta er skopstæling réttarkerfisins,“ sagði kona nokkur. „Lýðræðið hefur verið skaddað,“ sagði annar mótmælandi og aðrir hrópuðu: „Segið nei við Kavanaugh.“

Þá lýstu mótmælendur yfir áhyggjum af þeirri ógn sem þeir telja stafa af Kavanaugh varðandi réttinn til fóstureyðinga, aðgang að heilbrigðisþjónustu og byssulöggjöfina.

„Það er ómögulegt að halda áfram. Við höfum ekki getað haldið úti gagnlegri yfirheyrslu,“ sagði öldungadeildarþingmaður demókrata Kamala Harris.

Til ryskinga kom er öryggisverðir vísuðu mótmælendum á brott úr …
Til ryskinga kom er öryggisverðir vísuðu mótmælendum á brott úr þinghúsinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert