Franski flotinn í viðbragðsstöðu

AFP

Frönsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að franski flotinn sé í viðbragðsstöðu og verði sendur á vettvang komi til frekari átaka á milli franskra og breskra sjómanna í Ermarsundinu.

Til átaka kom á milli sjómanna frá Frakklandi og Bretlandi á miðum úti fyrir Normandí í Frakklandi þar sem einkum er veidd hörpuskel. Bresku sjómennirnir saka þá frönsku um að hafa siglt á báta sína, kastað í þá grjóti og skotið að þeim neyðarblysum. Frönsku sjómennirnir segja að þeir bresku hafi svarað í sömu mynt skömmu síðar.

Tilefnið mun hafa verið að breskir sjómenn geta veitt hörpuskel á miðunum allt árið um kring en þeim frönsku er það óheimilt fyrr en 1. október. Fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu mun einnig hafa átt sinn þátt í að átökin brutust út.

Bresk stjórnvöld hafa í hyggju að endurheimta yfirráð sín yfir breskum fiskimiðum en undanfarna áratugi, á meðan Bretar hafa verið í Evrópusambandinu, hafa þau farið með stjórn fiskveiða við Bretland eins og við önnur strandríki innan sambandsins.

Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Haft er eftir sjávarútvegsráðherra Frakklands, Stephane Travert, að slík átök verði ekki liðin.

mbl.is