Minnihlutastjórn líklegasta niðurstaðan

Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata.
Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata. AFP

„Fyrst og fremst snýst þetta auðvitað um það hvort hægri- eða vinstriblokkin nái meirihluta eða hvort að Svíþjóðardemókratarnir nái þeirri oddastöðu sem skoðanakannanir hafa verið að benda til. En jafnvel þó þeir verði í oddastöðu eru engu að síður ýmsir möguleikar í stöðunni.“

Þetta segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, um stöðu mála í aðdraganda þingkosninganna í Svíþjóð sem fram fara á sunnudaginn. Skoðanakannanir hafa bent til þess að hvorug blokkin, hvorki sú hægri né sú vinstri, muni ná meirihluta á sænska ríkisþinginu og að Svíþjóðardemókratar muni bæta við sig fylgi og komist í oddastöðu.

„Hins vegar, jafnvel þó Svíþjóðardemókratarnir komist í oddastöðu að loknum kosningunum eru engu að síður ýmsir möguleikar. Blokkirnar geta auðvitað riðlast til. Einhverjir flokkar geta farið á milli hægri- og vinstriblokkarinnar. Þar eru möguleikar. Síðan er einnig mögulegt að veitt yrði einhvers konar hlutleysi þvert yfir hægri-vinstri ásinn,“ segir Eiríkur ennfremur.

Hlutleysi sé líklegra en að mynduð verði ríkisstjórn þvert á blokkirnar. Rík hefð sé þannig fyrir minnihlutastjórnum í Svíþjóð. Líklegast sé að annað hvort sósíaldemókratar eða Hægriflokkurinn myndi ríkisstjórn með einhvers konar hlutleysi frá öðrum flokkum. Slíkt hlutleysi geti ennfremur verið misformlegt. Ekki þurfi endilega formlegar stjórnarmyndurnarviðræður og niðurnjörfaðan stjórnarsáttmála.

Vonast til að geta unnið með hægriblokkinni

„Hinir sænsku stjórnmálaflokkarnir hafa útilokað samstarf við Svíþjóðardemókratana. Flokkurinn hefur einnig verið að fá minna fylgi en aðrir þjóðernispópulískir flokkar í Skandinavíu. Þeir hafa síðan líka verið nær einhvers konar nýnasisma heldur en hinir flokkarnir. Þess vegna er það alltaf nokkuð kostnaðarsamt fyrir hefðbundnu flokkana að starfa með þeim.“

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svíþjóðardemókratar hafi haldið úti stefnu sem meirihluti Svía fyrirlíti. „Þó við getum sagt að til séu þjóðernispopulískir flokkar í hinum skandinavísku löndunum þá eru þeir mismunandi hvað þetta varðar. Jafnvel þó ný forysta Svíþjóðardemókrata hafi breytt ásýndinni verulega, frá því að vera í raun nýnasistahreyfing yfir í að hreinsa það að mestu út, þá er sú arfleifð ennþá til staðar.“

Þetta hafi orðið til þess að hinir stjórnmálaflokkarnir í Svíþjóð hafi tekið sig saman um að vilja ekki vinna með Svíþjóðardemókrötum. „Þeir gera sér hins vegar vonir um að geta unnið með hægriblokkinni og ná svipaðri stöðu og Danski þjóðarflokkurinn náði árið 2001 þegar hann varði hægristjórnina falli og hefur haldið í raun allar götur síðan með stuttum hléum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert