Tveir verða ákærðir í Skrípal-málinu

Novichok-taugaeitur var notað í árásinni.
Novichok-taugaeitur var notað í árásinni. AFP

Nöfn tveggja rússneskra ríkisborgara, sem grunaðir eru í máli þar sem eitrað var fyrir Skrípal-feðginunum Sergei og Júlíu, hafa verið gerð opinber. Til stendur að gefa út ákæru á hendur þeim Alexander Petrov og Ruslan Boshirov vegna árásarinnar sem átti sér stað í Salisbury á Englandi í mars. BBC greinir frá.

Mennirnir tveir eru báðir um fertugt og eru grunaðir um að hafa notast við fölsk nöfn. Lögreglan í Bretlandi kveðst hafa næg sönnunargögn gegn mönnunum til þess að leggja fram ákæru og sakfella þá fyrir árásina.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu lentu mennirnir á Gatwick-flugvelli 2. mars og gistu á City Stay Hotel í austurhluta London áður en þeir fóru til Salisbury 4. mars, þar sem útihurð Skripal var menguð með Novichok-taugaeitri.

Á meðal þess sem mennirnir tveir, Petrov og Boshirov, eru ákærðir fyrir er að leggja á ráðin um að myrða Sergei Skrípal, morðtilraun gegn Sergei Skrípal, Júlíu Skrípal og Nick Bailey, notkun og varsla á Novichok og að hafa valdið Júlíu Skrípal og Nick Bailey alvarlegu líkamstjóni.

Lögregluþjónninn Nick Bailey veiktist af eitrinu þegar hann sinnti máli Skripal-feðginanna. Öll þrjú komust lifandi frá árásinni.

Þau Dawn Sturgess og Charlie Rowley komust í snertingu við Novichok nokkrum mánuðum seinna eftir að Rowley fann ilmvatnsglas með eitrinu. Hann lifði atvikið af en Sturgess lést á sjúkrahúsi. Breska lögreglan hefur staðfest að málið tengist máli Skripal-feðginanna og sætir það sömu rannsókn. Ólíklegt þykir að árásinni hafi viljandi verið beint gegn Sturgess og Rowley, en gáleysisleg meðferð eitursins varð til þess að þau komust í snertingu við það.

Að sögn saksóknara í málinu verður ekki óskað eftir framsali mannanna tveggja frá Rússlandi, þar sem rússnesk stjórnvöld framselja ekki ríkisborgara sína.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, heldur erindi á breska þinginu síðar í dag þar sem hún mun upplýsa þingmenn um stöðu mála.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Hornborð til sölu ódýrt.
Hornborð 65x65 cm. Hæð 45 cm. Vel með farið kr. 900.- Er í Garðabæ s: 8691204...
Harðviður til húsbygginga
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...
dönsk antik innskotsborð sími 869-2798
dönsk antik innskotsborðinnlögð með rósamunstri í toppástandi á 35,000 kr sími...
Húsgagnaviðgerðir og bólstrun
Ég tek að mér viðgerðir og bólstrun á gömlum og nýjum húsgögnum. Starfsemin fer ...