Dæmdir fyrir að nauðga hjálparstarfsmönnum

Hermaður í Suður-Súdan. Árásin átti sér stað mitt í átökum …
Hermaður í Suður-Súdan. Árásin átti sér stað mitt í átökum milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna í Juba, en rúmlega 70 manns, þar af tveir friðargæsluliðar, létust í átökunum. Mynd úr safni. AFP

Herréttur í Suður-Súdan hefur dæmt 10 hermenn til fangelsisvistar fyrir að nauðga erlendum hjálparstarfsmönnum og fyrir morð á blaðamanni, að því er BBC greinir frá.

Þyngstu dómarnir varða lífstíðarfangelsi en þeir vægustu sjö ára fangavist. Þá var ríkisstjórn Suður-Súdans gert að greiða fórnarlömbunum andvirði 4.000 dollara (um 440.000 kr.) hverju í bætur og Mike Woodward, eiganda hótelsins þar sem árásirnar áttu sér stað, tvær milljónir dollara.

Glæpirnir voru framdir er hermennirnir gengu berserksgang á Terrain-hótelinu í höfuðborginni Juba árið 2016. Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út um málið voru friðargæsluliðar sakaðir um að hafa ekki brugðist við hjálparbeiðnum.

Einn hinna ákærðu var sýknaður og annar lést af eðlilegum orsökum meðan á varðhaldsdvölinni stóð.

Árásin átti sér stað mitt í átökum milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna í Juba, en rúmlega 70 manns, þar af tveir friðargæsluliðar, létust í átökunum.

Fimm erlendum hjálparstarfsmönnum hið minnsta var nauðgað þegar hersveitir réðust inn á hótelið.

mbl.is