Greiðslukortaupplýsingum stolið

Upplýsingum úr greiðslukortum viðskiptavina British Airways var stolið.
Upplýsingum úr greiðslukortum viðskiptavina British Airways var stolið. AFP

Persónulegum fjárhagsupplýsingum viðskiptavina flugfélagsins British Airways sem bókuðu flug á netinu dagana 21. ágúst til 5. september var stolið. Bókanirnar höfðu verið gerðar í gegnum 380 þúsund greiðslukort.

„Við erum að rannsaka málið af krafti, þjófnaðinn á gögnum viðskiptavina okkar af vefsíðunni okkar og úr farsímaappinu. Upplýsingar um ferðalög eða vegabréf voru ekki á meðal þeirra gagna sem var stolið,“ sagði í yfirlýsingu frá flugfélaginu.

„Búið er að koma í veg fyrir gagnalekann sem varð og vefsíðan okkar starfar eðlilega núna. Við höfum látið lögregluna og viðeigandi yfirvöld vita af því sem gerðist. Okkur þykir þetta mjög leitt.“

Hvað bætur varðar greindi flugfélagið frá því að haft yrði samband við hvern og einn viðskiptavin og farið yfir málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert