Ekki flaggað á tunglinu

Ryan Gosling í hlutverki Neils Armstrongs í First Man.
Ryan Gosling í hlutverki Neils Armstrongs í First Man. Universal Pictures/Daniel McFadden

Áður en hún er komin í kvikmyndahús í Bandaríkjunum er ný mynd um Neil Armstrong og fyrstu tunglgönguna orðin að þrætuepli, einkum vegna þess að augnablikið þegar bandaríska fánanum var stungið í yfirborð tunglsins er þar alls ekki að finna. Fagleg eða pólitísk ákvörðun hjá leikstjóranum?

„Þetta er algjört brjálæði og skaðlegt á tímum þegar minna þarf þjóðina á það hverju við fáum áorkað þegar við vinnum saman. Bandaríska þjóðin greiddi fyrir þennan leiðangur sem farinn var á geimflaug sem smíðuð var af Bandaríkjamönnum á grunni bandarískrar tækni og hugvits og um borð voru bandarískir geimfarar. Þetta var ekki leiðangur á vegum Sameinuðu þjóðanna.“

Þannig komst öldungadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Marco Rubio að orði á Twitter en umfjöllunarefnið er ný kvikmynd um líf og störf Neils Armstrongs, fyrsta mannsins sem steig fæti á tunglið, og frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum. Myndin, sem heitir einfaldlega First Man, er ekki komin í almennar sýningar í Bandaríkjunum en það sem fer fyrir brjóstið á Rubio er sú staðreynd að Armstrong og félagar eru ekki sýndir reisa bandaríska fánann upp á tunglinu þennan sögulega dag, 21. júlí 1969. Flaggið mun þó sjást í bakgrunni þegar geimfararnir spóka sig á tunglinu í myndinni.

Armstrong og Aldrin koma bandaríska fánanum fyrir á tunglinu 21. …
Armstrong og Aldrin koma bandaríska fánanum fyrir á tunglinu 21. júlí 1969

Fleiri sakna þessa fræga augnabliks. Sjónvarpskonan Ainsley Earhardt á Fox News líkir málinu við mótmæli þeldökkra leikmanna í NFL-deildinni, sem krupu á kné undir þjóðsöngnum á leikjum í fyrra. „Þeim þykir Bandaríkin ekki stórkostleg,“ segir hún. „Þeir vilja krjúpa á kné frammi fyrir fánanum og þjóðsöngnum. Þeir eru smeykir við að nota bandaríska fánann. Þetta er Hollywood.“

Buzz Aldrin, sem kom fast á hæla Armstrongs þennan merka dag, hefur ekki tjáð sig beint um myndina en röð myllumerkja sem hann skellti á Twitter hafa verið túlkuð á þann veg aðhann sé ósáttur. #stolturaðverabandaríkjamaður, #frelsi, #júlí1969, svo dæmi séu tekin. 

Afrek mannkyns

Ryan Gosling, sem fer með hlutverk Armstrongs í myndinni, segir tungllendinguna hafa náð út fyrir mörk þjóða og landamæra. „Almennt var litið á hana sem afrek alls mannkyns og þannig kjósum við að líta á það,“ segir hann í samtali við breska blaðið The Daily Telegraph.
Hann kveðst heldur ekki halda að Armstrong hafi litið á sig sem „bandaríska hetju“. „Af samtölum mínum við fjölskyldu hans og fólk sem þekkti hann að dæma var það þveröfugt. Og við vildum að myndin endurspeglaði Neil,“ bætir Gosling við en tekur fram að ef til vill sé hann ekki rétti maðurinn til að svara þessu þar sem hann sé frá Kanada.

Fram hefur komið að sonum Armstrong þykir myndin ekki óamerísk og andvíg bandarískum gildum. „Þetta er mannleg saga og hún er alþjóðleg,“ segir í yfirlýsingu frá Rick og Mark Armstrong, sem ævisöguritari föður þeirra, James R. Hansen, skrifar einnig undir. „Að sjálfsögðu undirstrikar hún afrek Bandaríkjamanna sem er um leið afrek „alls mannkyns“, eins og segir á skildinum sem Neil og Buzz skildu eftir á tunglinu.“

Leikstjórinn, Damien Chazelle, svaraði gagnrýninni á samfélagsmiðlum og kvaðst hafa tekið þá ákvörðun að leggja ekki áherslu á þennan gjörning, að stinga fánanum í yfirborð tunglsins. „Svarið við spurningunni um það hvort það sé pólitísk yfirlýsing er hins vegar nei. Markmið mitt með þessari mynd var að deila með áhorfendum óséðum og óþekktum hliðum á tunglverkefni Bandaríkjanna – einkum og sér í lagi persónulegri sögu Neils Armstrong og hvað hann var að hugsa og hvernig honum var innanbrjósts meðan þessar sögulegu klukkustundir liðu.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert