Líkt og að „slökkva eld með alkóhóli“

Stefan Löfven forsætisráðherra segir að atkvæði til Svíþjóðardemókrata sé eins …
Stefan Löfven forsætisráðherra segir að atkvæði til Svíþjóðardemókrata sé eins og að „slökkva eld með alkóhóli.“ AFP

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi Sosíaldemókrata, lauk kosningabaráttu sinni á því að vara Svía við því að kjósa Svíþjóðardemókrata (SD) í þingkosningunum þar í landi. Hann sagði að atkvæði til flokksins og harðrar innflytjendastefnu hans væri „hættulegt“ og „öfugvirkandi“ og bar það saman við að „slökkva eld með alkóhóli“.

BBC greinir frá. 

Fylgiskannanir í Svíþjóð benda til þess að Svíþjóðardemókratar fái allt að 20% greiddra atkvæða í kosningunum og verði þar með næststærsti flokkur landsins á eftir Sosíaldemókrötum. Svíþjóðardemókratar hafa gagnrýnt innflytjendastefnu núverandi ríkisstjórnar og boða harðari löggjöf í málaflokknum.

Svíþjóð „öfgafull“ í innflytjendamálum

Leiðtogi Svíþjóðardemókrata, Jimmie Åkesson, sagði í dag að Svíþjóð hefði verið „öfgafullt land“ á marga vegu, ekki síst í innflytjendamálum, og fyrirætlanir sínar um að taka við færri innflytjendum þætti „eðlilegri stefna“ annars staðar í Evrópu.

Árið 2015 tók Svíþjóð á móti metfjölda flóttamanna meðal Evrópuþjóða ef miðað er við höfðatölu. Síðan þá hefur minnihlutastjórn Stefans Löfvens hert innflytjendalöggjöfina og þannig dregið úr straumi flóttamanna til landsins. Löfven hefur lofað að fylgja „innflytjendastefnu sem stenst til langs tíma litið og nýtur stuðnings sænsku þjóðarinnar“, verði hann áfram við völd eftir kosningarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert