Spilað upp í hendur Svíþjóðardemókrata

Jimmie Åkesson að leiðtogaumræðunum loknum.
Jimmie Åkesson að leiðtogaumræðunum loknum. AFP

Sitt sýnist hverjum um framgöngu fréttamanna sænska ríkissjónvarpsins í leiðtogaumræðum sem fram fóru í gær. Í lok þáttar krufðu þáttastjórnendur umræðurnar ásamt stjórnmálaspekingum. Áður en að því kom las Martina Nord fréttamaður upp stutta yfirlýsingu frá SVT þess efnis að orðræða Jimmies Åkessons hefði falið í sér „blygðunarlausa alhæfingu á útlendingum og að SVT hafnaði henni“.

Malin Ekman, blaðamaður Sænska dagblaðsins (SvD), segir að ríkissjónvarpið hafi spilað upp í hendurnar á Svíþjóðardemókrötum, sem hafa lengi haft horn í síðu SVT og geti nú bent á uppákomuna sem „sönnun“.

„Það er er erfitt að ímynda sér að ákvörðun SVT afli Svíþjóðardemókrötum ekki samúðaratkvæða,“ segir Ekman og bætir við að ástæða sé til að hafa áhyggjur af þeirri þróun að stjórnmálaflokkum og fjölmiðlum sé stillt upp sem andstæðingum. Slíka gjá sé þegar að finna í Bandaríkjunum þar sem forsetinn máli fjölmiðla sem andstæðinga lýðræðislega kjörinna flokka.

Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur gefið út að hann muni sniðganga sænska ríkissjónvarpið, SVT, það sem eftir lifir kosningaumfjöllunar þess. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Åkesson sem send var út í dag. Ástæða sniðgöngunnar er að sögn Åkessons óánægja með framgöngu þáttastjórnenda.

Svíar ganga til kosninga á morgun. Talið er víst að ...
Svíar ganga til kosninga á morgun. Talið er víst að annar þessara, Stefan Löfven eða Ulf Kristersson, verði forsætisráðherra að þeim loknum. mbl.is/Alexander

Eru ekki Svíar og passa ekki inn

Ummælin sem fréttamenn SVT sáu ástæðu til að gera athugasemd við komu fram undir miðjum þætti þegar leiðtogarnir ræddu innflytjendamál undir yfirskriftinni Aðlögun (s. integration). Leiðtogum flokkanna varð tíðrætt um mikilvægi sænskukunnáttu og atvinnuþátttöku sem liðar í aðlögun að sænsku þjóðfélagi. Atvinnuleysi meðal íbúa Svíþjóðar sem fæddir eru erlendis er fjórfalt meira en meðal innfæddra, líkt og þáttastjórnendur bentu á.

Åkesson sagði leiðtoga hinna flokkanna þó einfalda málið um of. Þótt atvinnuþátttaka innflytjenda væri mikilvæg væri hún ekki töfralausn innflytjendavandans. „Við verðum líka að spyrja okkur hvers vegna það er svo erfitt fyrir þá [innflytjendurna] að fá vinnu. Jú, það er af því þeir eru ekki Svíar. Þeir passa ekki inn í Svíþjóð,“ sagði Åkesson. „Ætli þeir að fá vinnu verða þeir að sætta sig við þau skilyrði að þeir séu bara Svíar og passi inn.“ Ekki gengi að aðlögun útlendinga að Svíþjóð færi fram á þeirra forsendum.

Mótmæli úr röðum hægribandalagsins

Ummælin vöktu hörð viðbrögð annarra flokksleiðtoga, einkum Annie Lööf, formanns Miðflokksins, sem barði í borðið og spurði Åkesson hvernig hann vogaði sér að tala með þessum hætti.

Viðbrögð Annie Lööf og Jans Björklunds, formanns Frjálslyndra, við ummælum Åkessons hafa vakið spurningar um samstarf hægriflokka að kosningum loknum. Frjálslyndi flokkurinn og Miðflokkurinn tilheyra ásamt Kristilegum demókrötum og Moderaterna bandalagi hægriflokka, Alliansen, undir forystu Moderaterna og formanns hans, Ulfs Kristerssons. 

Nokkuð hefur verið rætt um möguleikann á því að bandalag hægriflokka myndi ríkisstjórn að kosningum loknum með stuðningi Svíþjóðardemókrata. Meðal þeirra sem hafa bent á þann kost er Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sósíaldemókrata, sem segir að Kristersson beri skylda til að kanna þann möguleika.

Bæði Miðflokkurinn og Frjálslyndir hafa áður gefið út að samstarf hægriflokka standi og falli með kröfunni um að Svíþjóðardemókratar komi ekki nálægt samstarfinu og í ljósi viðbragðanna í þættinum í gær má ætla að sú afstaða standi.

Annie Lööf, formaður Miðflokksins, brást harkalega við ummælum Åkessons.
Annie Lööf, formaður Miðflokksins, brást harkalega við ummælum Åkessons. AFP

Yfirmaður kosningasjónvarpsins stígur til hliðar

Fulltrúar Svíþjóðardemókrata og Sænska ríkissjónvarpsins funduðu í dag að frumkvæði þeirra fyrrnefndu. Henrik Vinge, fjölmiðlafulltrúi Svíþjóðardemókrata, segir fundinn hafa verið uppbyggilegan en hann sé þó ekki ánægður með niðurstöðu hans. „Þetta er ekki hlutverk ríkisfjölmiðils. Þeir eiga ekki að yfirfara yfirlýsingar stjórnmálamanna á þennan hátt,“ segir hann.

Hanna Stjärne útvarpsstjóri segist standa við bakið á fréttadeildinni. Hún bendir á að SVT hafi í fyrra fengið á sig ákúrur fjölmiðlanefndar Svíþjóðar fyrir að hafa látið rangfærslur fulltrúa Svíþjóðardemókrata óáreittar.

Ummælin sem Stjärne vísar til eru frá því í september í fyrra úr þættinum Aktuellt en þá fullyrti Matthias Karlsson, fulltrúi Svíþjóðardemókrata, ranglega að ríkisstjórnin hefði hleypt „tugum þúsunda mögulegra kynferðisafbrotamanna og hryðjuverkamanna inn í landið án skilríkja“.

„Við tökum úrskurði fjölmiðlanefndar alvarlega,“ segir Stjärne og bætir við að sænska ríkissjónvarpið taki því fagnandi ef Svíþjóðardemókratar leita álits fjölmiðlanefndar á framgöngu fréttamanna í þættinum í gær.

Þrátt fyrir að standa við fyrri yfirlýsingar hefur Eva Landahl, yfirmaður kosningaumfjöllunar SVT, ákveðið að stíga til hliðar fram yfir kosningar. Gerir hún það, að eigin sögn, til að umræður um gærkvöldið varpi ekki skugga á kjördaginn, en hún tilkynnti þetta í pistli á heimasíðu SVT.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Giftingar- og trúlofunarhringar frá ERNU
Mikið úrval. Á mynd er silfurpar með alexandrite-steini sem gefur mikið litaflóð...
ERNA 95 ára, hreinsum til á lagernum.
25 til 75% afsláttur. Silfurmunir, skartgripir, armbandsúr og gjafavara. Gott tæ...
Fágætar vínilplötur í Kolaportinu!!
Mikið úrval af fágætum vínilplötum í Kolaportinu við gluggavegg miðjan sjávarmeg...
EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Sjá fjölmargar gerðir á: http://www.sogem-sa.com/stairs Sími 615 1750 Sjá einni...