Svíþjóðardemókratar sniðganga SVT

Jimmie Åkesson sést hér í þættinum sem var sýndur í …
Jimmie Åkesson sést hér í þættinum sem var sýndur í beinni útsendingu í gær. AFP

Svíþjóðardemókratarnir hafa ákveðið að sniðganga sænska ríkissjónvarpið, SVT, eftir að forsvarsmenn stöðvarinnar tjáðu sig um ummæli sem Åkesson lét falla í umræðuþætti leiðtoga stjórnmálaflokkanna í gær. 

Í þættinum, sem var sýndur í beinni sjónvarpsútsendingu, lét Åkesson þau ummæli falla að ástæða þess að margir innflytjendur gætu ekki fengið vinnu í landinu væri sú að „þeir eru ekki Svíar“ og þeir „passi ekki inn í Svíþjóð“. 

Aðrir leiðtogar sem tóku þátt í umræðunni brugðust hart við ummælum leiðtogans. Þetta varð einnig til þess, sem vakti sérstaka athygli, að forsvarsmenn SVT skömmuðu Åkesson fyrir þessi ummæli, að því er fram kemur í sænskum fjölmiðlum.

„Við verðum að byrja á því að segja að ummæli Jimmies Åkessons voru blygðunarlausar alhæfingar og SVT er ekki á þessari skoðun,“ sagði þáttastjórnandinn Martina Nord eftir þáttinn.  

Svíþjóðardemókratarnir greindu frá því í dag að þeir myndu sniðganga SVT nema þeim bærist afsökunarbeiðni. Talsmaður Åkessons sagði að enginn flokksmaður myndi ræða við SVT fyrir kosningarnar, sem fara fram á morgun. Þá kæmi til greina að leiðtogar flokksins héldu áfram að sniðganga stöðina á morgun og næstu daga. 

Í færslu sem flokkurinn birti á Twitter kom fram að SVT hefði stigið fram á fordæmalausan hátt í sænskri sögu og tekið afstöðu gegn Svíþjóðardemókrötunum. Þarna hefði SVT stigið fram á sjónarsvið kosninganna með ósanngjörnum hætti. Þetta væri ekkert annað en hneyksli. 

Forsvarsmenn SVT greindu frá því í dag að stofnunin stæði við orð sín. Talskona SVT, Anne Lagercrantz, sagði að ummæli Nord eftir þáttinn væru í takt við svokallaða lýðræðisákvæði sem er að finna í útvarpslögum. Þar segir að allir þættir SVT verði að framfylgja þeirri grunnreglu lýðræðisins að allir séu jafnir.

mbl.is