Óvenjulegar kosningar

Kjörstöðum var lokað klukkan sex að íslenskum tíma.
Kjörstöðum var lokað klukkan sex að íslenskum tíma. AFP

Kjörstöðum í Svíþjóð hefur verið lokað. Búist er við fyrstu tölum um hálftíma fyrir miðnætti að staðartíma, um hálftíu að íslenskum.

Kjörsókn hefur verið góð og víða röð út úr dyrum á kjörstöðum, þar sem fólki var sumstaðar hleypt inn í hollum um leið og álíka stór hópur yfirgaf kjörstað, líkt og um skemmtistað væri að ræða.

„Það er margt sem má bæta,“ segir Caroline Cederquist, stuðningsmaður Moderaterna, þegar blaðamaður spyr hana hvaða mál brenni helst á kjósendum flokksins. Hún segir Svíþjóðardemókrata reyna að snúa öllu upp í umræður um aðlögun [innflytjenda] og að þeim hafi að vissu leyti tekist að gera það að fyrirferðarmiklu umræðuefni. Hún telur þó ekki að Moderaterna hafi látið þrýsting frá flokknum hafa of mikil áhrif á orðræðuna.

Aðhald í efnahagsmálum og skattalækkanir eru ofarlega á baugi hjá Moderaterna en flokkurinn hefur einnig lagt áherslu á bætta löggæslu og hertar refsingar fyrir alvarleg brot, segir Cederquist. Umræður um öryggismál komi af sjálfu sér þegar skotárásum og öðrum glæpum fjölgar, eins og raunin hefur verið í Svíþjóð undanfarin ár.

Viðmælendur á kosningavöku Moderaterna voru flestir sammála um að kosningarnar nú væru um margt óvenjulegar og óvenjulegt væri að sænskar kosningar vektu jafnmikla athygli erlendis og nú er.

Caroline Cederquist var mætt snemma til að undirbúa kosningavöku Moderaterna …
Caroline Cederquist var mætt snemma til að undirbúa kosningavöku Moderaterna í miðborg Stokkhólms. mbl.is/Alexander

Sama og síðast, takk

„Ég hef kosið Sósíaldemókrata síðan fyrir aldamót og ég sé ekki ástæðu til að breyta til,“ segir Johann, sem hafði nýlokið við að kjósa. Hann segir kosningarnar nú að mörgu leyti ólíkar því sem Svíar eigi að venjast, ekki síst fyrir þær sakir að Sósíaldemókratar virðast stefna í að fá sitt minnsta fylgi í hundrað ár, þótt flokkurinn mælist enn stærstur í könnunum. „Auðvitað er ekki hægt að líta framhjá því að þetta er áfall. Ég held hins vegar að nú geti flokkurinn aðeins vaxið,“ segir hann. 

Spurður hvort hann telji rétt að Stefan Löfven formaður segi af sér nái hann ekki að mynda ríkisstjórn segist hann ekki geta gefið afdráttarlaust svar. „Það gæti vissulega verið sniðugt.“

Embætti forsætis-, fjármála- og utanríkisráðherra eru öll á könnu Sósíaldemókrata.
Embætti forsætis-, fjármála- og utanríkisráðherra eru öll á könnu Sósíaldemókrata. AFP

Tími fyrir breytingar - til hægri eða vinstri

Malene Egård segist hafa verið stuðningsmaður Svíþjóðardemókrata í áratug eða frá því áður en flokkurinn átti mann á sænska þinginu. Hún gekk þó ekki í flokkinn fyrr en fyrir fjórum árum og er nú á lista í sveitarstjórnarkosningunum.

Egård er að vonum ánægð með gengi Svíþjóðardemókrata í kosningabaráttunni. Útgönguspár benda til að flokkurinn fái á bilinu 17-19% atkvæða og verði álíka stór og Moderaterna. Hún segir að kominn sé tími til breytinga í Svíþjóð.

Aðspurð segist hún ekki telja að eini möguleiki flokksins sé að styðja ríkisstjórn hægribandalagsins, Alliansen. Vel megi hugsa sér bandalag þvert á blokkirnar tvær, sem einkennt hafa sænsk stjórnmál svo lengi.

Egård, önnur f.v., á leið á kosningavöku Svíþjóðardemókrata.
Egård, önnur f.v., á leið á kosningavöku Svíþjóðardemókrata.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert