Hafna ímyndinni um fyrirmyndarríkið

Frá kosningafundi Svíþjóðardemókrata í Stokkhólmi í gærkvöldi. Búist er við …
Frá kosningafundi Svíþjóðardemókrata í Stokkhólmi í gærkvöldi. Búist er við að flokkurinn vinni kosningasigur og verði í fyrsta sinn næststærsti flokkurinn á sænska þinginu. AFP

„Þetta eru æsispennandi kosningar,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur í samtali við blaðamann mbl.is um kosningar dagsins í Svíþjóð. Eiríkur segir að spennan snúist að miklu leyti um það hversu stórir Svíþjóðardemókratarnir verði á sænska þinginu, Riksdag, þegar úrslitin liggi fyrir.

Hann segir að áhugavert verði að fylgjast með því hvernig átök Svíþjóðardemókrata við sænska ríkisútvarpið, SVT, spilast fyrir flokkinn á lokametrunum.

„Ég held að þetta geti nú spilast svolítið upp í hendurnar á þeim, sú uppákoma öllsömul,“ segir Eiríkur, en Svíþjóðardemókratar tóku ákvörðun um að sniðganga ríkisútvarpið vegna þess að þáttastjórnandi í kosningasjónvarpi þess gerði athugasemdir við málflutning formannsins Jimmies Åkessons á föstudagskvöld.

Svíþjóðardemókratarnir mælast nú með um 20% fylgi í nýjustu könnunum og útlit er fyrir að flokkurinn vinni þar með stórsigur í kosningunum og verði næststærsti flokkurinn á þinginu. Það mun gera hefðbundna ríkisstjórnarmyndun til annaðhvort vinstri eða hægri erfiða, þar sem enginn hinna flokkanna vill vinna með Svíþjóðardemókrötunum.

Forsætisráðherrann Stefan Löfven, formaður Sósíaldemókrata, hefur kallað flokkinn rasista- og nasistaflokk og núna fyrir kosningar sagt að það sé hreinlega hættulegt að kjósa hann.

Dr. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir Svíþjóðardemókratana hafna því sem viðtekið …
Dr. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir Svíþjóðardemókratana hafna því sem viðtekið hafi verið á meðal sænskra stjórnmálamanna, að Svíþjóð sé fyrirmyndarríki. mbl.is/Hari

„Þú ert náttúrlega að tala um stjórnmálamenningu sem hvílir á mikilli kurteisi og háttvísi í gegnum tíðina, Svíar eru mjög óvanir svona óvæginni umræðu eins og þeirri sem Svíþjóðardemókratarnir hafa staðið fyrir,“ segir Eiríkur, en flokkurinn hefur löngum talað með gagnrýnum hætti um innflytjendastefnu sænskra stjórnvalda og hefur nú fyrir kosningarnar dregið upp dökka mynd af ástandinu í Svíþjóð.

Eiríkur segir að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því sem Svíþjóðardemókratar séu að gera með málflutningi sínum og þeirri dökku mynd sem þetta kosningamyndband flokksformannsins hér að ofan dregur upp.

„Stjórnmál í Svíþjóð hafa að miklu leyti hvílt á þeim sameiginlega skilningi flestra flokka í Svíþjóð að Svíþjóð sé á einhvern hátt fyrirmyndarríki annarra ríkja. Þetta hefur verið stór hluti af sjálfsmynd sænskra stjórnmála. Stjórnmálamenn í Svíþjóð eru mjög óvanir því að þessari afstöðu sé alfarið hafnað og þess í stað sé því haldið fram að í Svíþjóð sé í rauninni öll í kaldakoli. Það er það sem býr til þessi miklu átök í Svíþjóð núna,“ segir Eiríkur.

Forsætisráðherrann Stefan Löfven ásamt eiginkonu sinni Ullu á kjörstað í …
Forsætisráðherrann Stefan Löfven ásamt eiginkonu sinni Ullu á kjörstað í Stokkhólmi í morgun. Þar kallaði hann Svíþjóðardemókratana enn á ný rasistaflokk. AFP

Stjórnarmyndunin gæti reynst erfið

Mikið fylgi Svíþjóðardemókrata nú þýðir að ríkisstjórnarmyndun til bæði hægri og vinstri gæti reynst erfið, en hvorug blokkin virðist eiga möguleika á að ná meirihluta þingsæta. Hefð er fyrir því í Svíþjóð að mynda minnihlutastjórnir þegar aðrir kostir eru ekki í boði.  Ríkisstjórn Sósíaldemókrata og Umhverfisflokksins sem setið hefur frá 2014 er veikasta minnihlutastjórnin í sögunni, einungis með 138 þingsæti af 349, eða 39,5%, og reiðir sig á stuðning annarra flokka á þingi.

Kjörstaðir opnuðu um gjörvalla Svíþjóð í morgun.
Kjörstaðir opnuðu um gjörvalla Svíþjóð í morgun. AFP

Eiríkur segir þó að alltaf sé mögulegt að mynda breiða ríkisstjórn þvert yfir miðjuna, „líkt og gerðist í Þýskalandi og líkt og er staðreynd á Íslandi í dag. Svo er líka mögulegt að einhverjir, kannski aðallega hægri blokkin, segi eftir kosningar að staðan sé breytt og að vinna verði með niðurstöðuna og leiti einhvers konar samstarfs við Svíþjóðardemókrata. Þó að stjórnmálamenn útiloki að vinna með öðrum eftir kosningar á það nú stundum til að breytast þegar kosningarnar eru um garð gengnar, við þekkjum nú dæmi um það“, segir Eiríkur.

Þegar byrjaðir að breyta umræðunni

Aðrir sænskir stjórnmálaflokkar hafa þó algjörlega útilokað núna fyrir kosningar að vinna með Svíþjóðardemókrötunum. Aðspurður hvort yfirvofandi kosningasigur Svíþjóðardemókrata gæti þýtt það að aðrir og rótgrónari flokkar í sænska þinginu færi sig nær málflutningi þeirra, líkt og gerst hefur í tilviki Danska þjóðarflokksins í Danmörku og raunar víðar á Norðurlöndum, segir Eiríkur að sú þróun sé þegar byrjuð.

„Sú þróun er hafin, en hún er ekki komin á neinn álíka stað og í Danmörku og á mjög langt í land með það,“ segir Eiríkur og bætir því við að raunar hafi það ekki gefist vel fyrir aðra danska stjórnmálaflokka að elta málflutning Danska þjóðarflokksins, eins og til dæmis Jafnaðarmenn hafa gert.

„Það hefur ekki minnkað fylgi Danska þjóðarflokksins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert