Kosið í Svíþjóð í dag

Frá kjörstað í Stokkhólmi í morgun.
Frá kjörstað í Stokkhólmi í morgun. AFP

Svíar ganga til kosninga í dag. Kjósendur hafa um nóg að velja því samtímis er kosið til þings, sveitarstjórna og héraðsstjórna (s. landsting). Kjörstaðir voru víðast hvar opnaðir klukkan átta í morgun og verður þeim lokað klukkan átta í kvöld, klukkan sex að íslenskum tíma.

Karlmaður yfirgefur kjörklefann í Stokkhólmi.
Karlmaður yfirgefur kjörklefann í Stokkhólmi. AFP

Ef marka má utankjörfundaratkvæðagreiðslu má búast við góðri kjörsókn. Fleiri hafa kosið utankjörfundar nú en í kosningunum fyrir fjórum árum, þeirra á meðal Stefan Löfven forsætisráðherra, Gustav Fridolin, formaður Umhverfisflokksins, sem situr einnig í ríkisstjórn, og Ebba Busch Thor, formaður Kristilegra demókrata.

Stöðluð kosningaplaköt prýða ljósastaura um allt land og tryggja að …
Stöðluð kosningaplaköt prýða ljósastaura um allt land og tryggja að kosningarnar fari ekki framhjá neinum. AFP


Mest er spennan vitanlega fyrir þingkosningunum. Kannanir benda til þess að mjótt sé á munum milli bandalags hægriflokka, Alliansen, og vinstriflokkanna þriggja. Í nýjustu könnunum mælast vinstriflokkarnir þrír samanlagt með 40-42% fylgi en bandalag hægriflokka 38-39%. Svíþjóðardemókratar, sem tilheyra hvorugri blokkinni, mælast svo með um 18% fylgi, álíka mikið og hægriflokkurinn Moderaterna, sem fer fyrir bandalagi hægriflokka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert