Löfven: Endalok blokkapólitíkurinnar

Löfven á kosningafundi í gær.
Löfven á kosningafundi í gær. AFP

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar og formaður Sósíaldemókrata, segir niðurstöður kosninganna nú eiga að þýða endalok þeirrar blokkapólitíkur sem hefur einkennt sænsk stjórnmál til margra áratuga.

Löfven sagði hvorki hægri- né vinstriflokkana hafa fengið skýrt umboð til ríkisstjórnarmyndunar og nauðsynlegt væri að flokkar töluðu saman þvert á fylkingarnar. „Enginn einn flokkur getur leitt Svíþjóð, en þeir sem vilja bæta landið verða að taka sig saman,“ sagði forsætisráðherrann, sem sýndi ekki á sér neitt fararsnið.

Vinstriblokkin með naumt forskot

Löfven sagði ekkert launungamál að Sósíaldemókratar hefðu viljað ná betri úrslitum. Hins vegar mætti ekki líta fram hjá því að sænskir kjósendur hefðu enn einu sinni gert flokkinn að þeim stærsta á þinginu. „Og það er óumdeilanlegt!“ sagði forsætisráðherrann.

Hann hafnaði sem fyrr öllu samstarfi við Svíþjóðardemókrata. „Þeir hafa ekkert fram að færa. Engar tillögur sem geta bætt Svíþjóð. Fjárlögin þeirra ganga ekki einu sinni upp. Það sem þeir hafa upp á að bjóða er hatur og sundrung,“ sagði Löfven.

Löfven ásamt Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, sem tók þátt í ...
Löfven ásamt Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, sem tók þátt í kosningafundi Sósíaldemókrata á dögunum. AFP

Hann hvatti flokka hægribandalagsins til að líta út fyrir bandalagið. Ef þeir gerðu það ekki myndu Sósíaldemókratar þó, sem stærsti flokkurinn, fara fram á að leiða stjórnarmyndunarviðræður. 

Þegar þetta er skrifað hafa 99,3% atkvæða verið talin og hafa vinstriflokkarnir þrír 144 þingsæti en bandalag hægriflokka 142. Svíþjóðardemókratar, sem tilheyra hvorugu bandalaginu, hafa 63.

Bjartir tímar fram undan

Stefan Löfven hóf ræðuna á að þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem hefðu komið að kosningunum fyrir hönd Sósíaldemókrata, einkum ungliðahreyfingunni SSU. „Gleðin og viljinn er ekki sjálfsagður og það er þess vegna sem ég elska ykkur.“

Þá hljóp hann á hundavaði yfir störf ríkisstjórnar Sósíaldemókrata og Græningja sem hefur verið við völd síðustu fjögur ár. Hærri barnabætur, lægri skattur á ellilífeyri, lægsta atvinnuleysi ungs fólks innan Evrópusambandsins, var meðal þess sem Löfven nefndi.

Hann lauk ræðunni á að segja flokksmönnum að bera höfuðið hátt. Það ábyrgðarfyllsta nú væri að missa sig ekki í vangaveltum. Bjartari tímar væru fram undan fyrir Sósíaldemókrata. Tvær vikur væru til þingsetningar og þann tíma myndi þingflokkurinn nýta til að leita samstarfs við þá sem „vilja bæta Svíþjóð“.

mbl.is
fágætar bækur til sölu
til lsölu nokkrar fágætar bækur Sneglu-Halli eftir Símon Dalaskáld Guðmundar...
www.flutningur.is 5753000 sendibilastöð
Stöðin býður upp á allar stærðir sendibíla og veitir trausta og umfram allt góð...
Dartvörur í úrvali frá UNICORN.
Dartvörur í úrvali frá UNICORN. pingpong.is Síðumúla 35 (að aftanverðu) Sími 568...
ÚTI HRINGSTIGAR
Vantar stiga af svölunum ofan í garðinn ? Stærð 120, 140 og 160 cm og eftir mál...