Ríkjum sem beita dauðarefsingu fækkar

Ríkjum sem beita dauðarefsingu fækkaði milli áranna 2016 og 2017.
Ríkjum sem beita dauðarefsingu fækkaði milli áranna 2016 og 2017. AFP

Þeim ríkjum sem beita dauðarefsingu fer fækkandi og höfðu árið 2017 tveir þriðju hlutar ríkja jarðar ýmist afnumið dauðarefsingu eða eru hætt að beita henni að sögn mannréttindasamtakanna Amnesty International.

Dauðarefsingu er þó enn beitt í 23 löndum og eru hvergi teknir fleiri af lífi en í Kína að því er fram kemur í ársskýrslu samtakanna fyrir 2017.

Í lok síðasta árs höfðu 142 ríki afnumið dauðarefsingu úr lögum eða voru hætt að beita henni, þar af var bannið bundið í lög í 106 ríkjum. Gínea og Mongólía voru síðustu löndin til að bætast í hóp þeirra sem afnumið hafa dauðarefsingu og í Gvatemala hefur dauðarefsingin verið afnumin gegn öllum borgaralegum glæpum.

Þá hefur ríkjum sunnan Sahara þar sem dauðarefsingu er beitt einnig fækkað og raunar aftökum á svæðinu öllu. Þannig voru það bara Sómalía og Súdan sem tóku fólk af lífi í fyrra, en árið áður voru ríkin fimm.

Á sama tíma var unnið að því að afnema dauðarefsingu í Búrkína Fasó, Tjad, Kenía og Gambíu.

Hvíta-Rússland var eina Evrópu- og Mið-Asíuríkið til beita dauðarefsingu árið 2017. Aftökurnar voru tvær í fyrra og fækkaði þar með um fjórar frá árinu áður. Frestun var hins vegar beitt gegn dauðadómum í Kasakstan, Rússlandi og Tadsíkistan.

Alls voru 993 aftökur skráðar í 23 ríkjum árið 2017 og er það 4% minna en árið áður og 39% minna en 2015, en það ár náðu aftökur hámarki og voru alls 1.634. Amnesty tekur þó fram í skýrslunni að inni í þessum tölum séu ekki þær „þúsundir“ sem taldar eru teknar af lífi í Kína án þess að greint sé frá því þar sem drápin eru flokkuð sem ríkisleyndarmál.

Utan Kína segir Amnesty að Íran, Sádi-Arabía, Írak og Pakistan – í þessari röð – hafi framkvæmt 84% af öllum aftökum. Aftökum hefur þó fækkað um 31% frá árinu áður í Pakistan og um 11% í Íran.

Barein, Jórdanía, Kúveit og Sameinuðu arabísku furstadæmin tóku hins vegar aftur upp dauðarefsingu í fyrra.

Níunda árið í röð eru Bandaríkin eina Ameríkuríkið sem beitir dauðarefsingu og voru 23 aftökur skráðar þar. Þá eru Bandaríkin og Japan, þar sem fjórir voru teknir af lífi í fyrra, einu ríki G8 sem beita dauðarefsingunni.

Þær aðferðir sem ríkin 23 beita við aftökur eru allt frá hengingum, að aftökusveit sé beitt og yfir í aftöku með notkun lyfja.

mbl.is
Bækur um ættfræði, byggðasögu og ýmsan fróðleik til sölu
Til sölu nokkur grundavallarrit ættfræðinnar ásamt ritum um atvinnu- og byggðasö...
Skákborð vandað palesander
til sölu vandað skákborð. kr.45 þúsund.uppl.8691204...
Skattframtalsgerð einstaklingar/minni fé
Tek að mér gerð skattframtala fyrir einstaklinga og minni félög. Almennt bókhal...
JEMA Bílalyftur í bílskúrinn
Frábærar skæralyftur sem henta í bílskúrinn,lyfta 1,2 m og 2,8T, glussadrifnar...