Sendir meintum tilræðismönnum aðvörun

Tilræðismennirnir meintu sjást hér á göngu eftir Fisherton Road í ...
Tilræðismennirnir meintu sjást hér á göngu eftir Fisherton Road í Salisbury 4. mars. AFP

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, segir að rússnesku mennirnir tveir, sem eru grunaðir um að hafa eitrað fyr­ir Skrípal-feðgin­un­um, Ser­gei og Júlíu, verði handsamaðir og sóttir til saka yfirgefi þeir Rússland. 

Javid telur hins vegar afar ólíklegt að mennirnir muni sjást aftur í Bretlandi. 

Hann sagði í samtali við BBC að talið væri að mennirnir tilheyrðu rússnesku leyniþjónustunni GRU og að þeir hefðu verið að framfylgja skipunum hátt settra embættismanna í Rússlandi. 

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands.
Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands. AFP

Eitrað var fyrir Sergei Skrípal, sem er fyrrverandi rússneskur njósnari, og Júlíu dóttur hans, í mars á þessu ári. 

Talið er að mennirnir hafi ferðast til Bretlands frá Moskvu, höfuðborg Rússlands, 2. mars á rússneskum vegabréfum. Þeir hafi notað dulnefnin Alexander Petrov og Ruslan Boshirov.

Lögreglan segir að þeir hafi sprautað taugaeitrinu Novichok á dyrnar að heimili Skrípal tveimur dögum síðar í Salisbury. Síðar sama daga héldu mennirnir aftur til Rússlands. 

Ruslan Boshirov og Alexander Petrov eru grunaðir um ódæðið.
Ruslan Boshirov og Alexander Petrov eru grunaðir um ódæðið. AFP

Árásin leiddi til þess að Skrípal, sem er 66 ára gamall, og dóttir hans, 33 ára, voru flutt á sjúkrahús þar sem þau lágu í nokkrar vikur.

Breski innanríkisráðherrann segir að árásin hafi verið ógeðfelld. 

Hann segir það augljóst að rússnesk stjórnvöld hafi staðið á bak við árásina. Þarna hafi tveir rússneskir ríkisborgarar verið sendir til Bretlands í þeim eina tilgangi að reyna að ráða Skrípal af dögum.

mbl.is
flott innskotsborð með innlögðum rósum
er með falleg innskotsborð á 20,000 kr sími 869-2798...
LAGER AF DIM UNDIRFATNAÐI TIL SÖLU!
Til sölu lager af DIM dömu undirfatnaði, sokkabuxum, sokkum ásamt herra nærfatn...
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...