Stefnir í langar og flóknar samningaviðræður

Jimmie Åkes­son formaður Svíþjóðardemókrata er sigurvegari kosninganna að mati Dr. …
Jimmie Åkes­son formaður Svíþjóðardemókrata er sigurvegari kosninganna að mati Dr. Eiríks. AFP

„Það er allt í hnút og það stefnir í verulega flókna ríkisstjórnarmyndun á næstu vikum. Þetta er ekki eitthvað sem er að fara leysast snögglega held ég,“ segir dr. Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur og prófessor, um niðurstöðu kosninganna í Svíþjóð í samtali við mbl.is

„Það stefnir allt í einhvers konar minnihlutastjórn þar sem blokkirnar tvær munu riðlast með einhverjum hætti. Það er niðurstaðan,“ bætir hann við.

Engin augljós lausn í sjónmáli

Nú þegar atkvæði hafa verið talin í 5.974 kjörstöðum af 6.004 er niðurstaðan sú að rauðgræna bandalagið eða vinstri blokkin fær 144 þingmenn, borgaralegu flokkarnir eða hægri blokkin fær 142 þingmenn og Svíþjóðardemókratar fá 63 þingmenn.

Myndun ríkisstjórnar verður því flókið verkefni þar sem að blokkirnar tvær útilokuðu samstarf við Svíþjóðardemókrata fyrir kosningar. Jimmie Åkes­son, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur þó lýst yfir vilja til að ræða við Ulf Kristersson, leiðtoga Moderaterna.  

Ulf Kristersson leiðtogi Moderaterna.
Ulf Kristersson leiðtogi Moderaterna. AFP

„Það er engin augljós lausn. Sósíaldemókratar eru stærstir en halda ekki meirihluta. Hægri blokkin nær ekki að fella vinstri blokkina. Svíþjóðardemókratar sigla inn á milli en ná ekki þeirri stöðu sem þeir höfðu vonast til um tíma,“ segir Eiríkur og bætir við:

„Það er alveg ljóst að þessi blokkamyndun mun riðlast. Hún getur ekki haldið og ég heyri ekki betur en að forsætisráðherra Svíþjóðar sé að reyna lokka yfir hrygginn einhverja þá flokka úr hægriblokkinni sem liggja nær þeim.“

Engin krísa í uppsiglingu

Þrátt fyrir flókna stöðu sér Eiríkur ekki fyrir sér að það komi til stjórnarkrísu eða jafnvel nýrra kosninga þar sem stjórnmál í Svíþjóð séu fáguð og eftir fastmótuðum brautum.

„En þetta gætu orðið langvarandi og flóknar samningaviðræður sem verða væntanlega marglaga,“ tekur hann fram.

„Þeir eru með ákveðið kerfi í þinginu hvernig forsætisráðherra er kjörinn. Það byrjar á því að það verða þreifingar og fráfarandi forseti gerir tillögu að forsætisráðherra til þingmanna. Hann hefur, ef ég man rétt, þrjár tilraunir áður en það fer í frjálsa kosningu í þinginu. Það verður spennandi að sjá hvernig það spilast út,“ bætir Eiríkur við.

Löfven vankaður en ekki rotaður

Leiðtogar nokkurra flokka hafa nú þegar kallað eftir afsögn forsætisráðherra Svíþjóðar og formanns Sósíaldemókrata, Stefans Löfvens. Hann lýsti því þó yfir í ræðu sinni á kosningavöku flokksins að hann muni ekki verða við þeim óskum.

Eiríkur telur stöðu hans ekki sterka en þó betri en útlit var fyrir um.

„Hann ætlar ekki að segja af sér og hann þarf þess ekki. Hann situr þangað til að nýr forsætisráðherra er kosinn á þinginu og það gæti tekið langan tíma. Staða hans er ekki eins skelfileg og það leit út fyrir lengi vel en hún er ekki sterk,“ segir Eiríkur.

„Hann stendur ævintýralega höllum fæti en þetta er ekki beinlínis rothögg þó hann sé verulega vankaður,“ bætir hann við.

Stefan Löfven stendur ævintýralega höllum fæti að mati Dr. Eiríks.
Stefan Löfven stendur ævintýralega höllum fæti að mati Dr. Eiríks. AFP

Svíþjóðardemókratar sigurvegarar kosninganna

Svíþjóðardemókratar eru sigurvegarar kosninganna ásamt Frjálslynda flokknum og Miðflokknum að mati Eiríks. Hann telur þó að Svíþjóðardemókratarnir hafi náið að láta kosningabaráttuna og sænsk stjórnmál snúast um þá sjálfa.

„Að því leyti eru þeir sigurvegarar en þeir eru ekki að landa þeim stóra sigri sem að stefndi í,“ segir Eiríkur.

„Þetta er súrsætt myndi ég segja [fyrir Svíþjóðardemókrata],“ bætir hann við að lokum.

Dr. Eiríkur Bergmann prófessor er eðlilega hugsi yfir niðurstöðu kosninganna.
Dr. Eiríkur Bergmann prófessor er eðlilega hugsi yfir niðurstöðu kosninganna. mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert