Svíþjóðardemókratar í „oddastöðu“ samkvæmt útgönguspá

Sósialdemókratar eru stærsti flokkurinn en fá verstu útreið í sögunni …
Sósialdemókratar eru stærsti flokkurinn en fá verstu útreið í sögunni skv. útgönguspá í Svíþjóð. AFP

„Þetta er alveg eins og búist var við. Þessar tvær blokkir sleikja 40% og Svíþjóðardemókratarnir í algjörri oddastöðu eins og stefndi í,“ segir Dr. Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur og prófessor, í samtali við mbl.is um fyrstu útgönguspá í Svíþjóð.

Samkvæmt fyrstu útgönguspá frá Svíþjóð er flokkur Sósíaldemókrata stærstur með 26,2% og Svíþjóðardemókratar næst stærstur með 19,2%. Hægriflokkurinn Moderaterna fær 17,8% samkvæmt spánni.

Flókið að mynda ríkisstjórn

Eiríkur segir að myndun ríkisstjórnar verði flókin miðað við þessar tölur.  

„Sósíaldemókratarnir eru stærstir en fá verstu útreið í sögunni. Moderatarnir fara mikið niður. Þetta er flókin staða og það verður snúið að vinna úr þessu. Blokkirnar þurfa eitthvað að riðlast svo að hægt sé að koma á starfhæfri ríkisstjórn,“ segir Eiríkur.

„Það er alveg til í dæminu að ef hægribandalagið verður stærri en vinstri blokkin að þá taki þeir við landsstjórninni sem minnihlutastjórn og einhverjir úr vinstri blokkinni í það minnsta þoli þá stjórn. Þá gætu Moderatarnir stýrt, það er ein leið af mörgum,“ bætir hann við.

Dr. Eiríkur Bergmann.
Dr. Eiríkur Bergmann. mbl.is/Hari

Meirihlutasamstarf óformlegra í Svíþjóð

Eiríkur bendir á að meirihlutasamstarf í Svíþjóð geti verið miklu óformlegra í Svíþjóð heldur en gerist og gengur á Íslandi og það séu margar leiðir til að mynda ríkisstjórn, bæði meiri- og minnihlutastjórnir.

„Það er hægt að mynda meirihlutastjórn eins og við þekkjum hér á Íslandi, það er reyndar óvanalegt í Svíþjóð. Það er líka hægt að mynda minnihlutastjórn sem hefur formlegan stuðning tiltekinna flokka og það er hægt að samþykkja meirihlutasáttmála,“ segir hann og bætir við:

„En minnihlutastjórn getur líka starfað án slíks sáttmála. Það hefur gerst oft í sögunni að það hefur ekki verið neitt samkomulag um meirihluta þrátt fyrir að minnihlutastjórn hafi starfað. Sósíaldemókratar gerðu það gjarnan í eina tíð, sömdu ýmist til hægri eða vinstri eftir málaflokkum.“

„Það þarf ekki að mynda formlegan meirihluta, það eina sem þarf að gerast er að það myndist ekki meirihluti gegn ríkisstjórn. Þannig að sá sem telur sig geta stýrt án þess að fá á sig vantraust getur einfaldlega myndað ríkisstjórn,“ segir hann einnig.

Håkan Juholt sendiherra Svíþjóðar. Frá kosningavöku í sendiráði Svíþjóðar í …
Håkan Juholt sendiherra Svíþjóðar. Frá kosningavöku í sendiráði Svíþjóðar í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin fallin

Þrátt fyrir að það þurfi ekki að mynda formlegan meirihluta í Svíþjóð telur Eiríkur að ríkisstjórn Sósíaldemókrata og Umhverfisflokksins sé fallin miðað við útgönguspánna.

„Ég held að hún verði að fara frá því það er líka þannig að ef ríkisstjórn hefur ekki augljósan stuðning á bak við sig eftir kosningar þá á hún að fara frá og þessi ríkisstjórn hefur það augljóslega ekki,“ útskýrir Eiríkur.

Sænski forsætisráðherrann Stefan Löfven. Ríkisstjórn hans er fallin, segir Dr. …
Sænski forsætisráðherrann Stefan Löfven. Ríkisstjórn hans er fallin, segir Dr. Eiríkur Bergmann. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina