10 ára verði hneppt í betrunarvarðhald

Lögreglan í Kaupmannahöfn að störfum. Samkvæmt frumvarpinu eiga börn og ...
Lögreglan í Kaupmannahöfn að störfum. Samkvæmt frumvarpinu eiga börn og foreldrar að finna fyrir afleiðingum glæpsamlegrar hegðunar. Mynd úr safni. AFP

Leyfilegt verður að hneppa börn niður í 10 ára aldur í betrunarvarðhald í allt að fjögur ár verði frumvarp dönsku ríkisstjórnarinnar að lögum. Frumvarpsdrögin eru á leið í gegnum þingið og segir dómsmálaráðherrann, Søren Pape Poulsen, þeim vera beint gegn börnum á aldrinum 10-14 sem fremji alvarlega glæpi.

Fréttavefurinn CPH Post Online fjallaði um málið í lok júní, en lítið virðist fara fyrir umræðu um frumvarpsdrögin í dönskum fjölmiðlum. Mbl.is er með eintak af frumvarpinu sem er titlað sem „lög til að berjast gegn glæpum ungmenna“ og er tilgangurinn með lögunum sagður vera að fyrirbyggja glæpi ungmenna í gegnum stofnun sérstakrar unglingaafbrotanefndar.

Politiken segir Danska þjóðarflokkinn lengi hafa verið talsmann þess að lækka sakhæfisaldur niður í 10 ár og að frumvarpsdrögin, sem flokkurinn leggur fram nú ásamt samstarfsflokki sínum Sósíaldemókrötum,  séu skref í þá átt.

Frumvarpið er í 24 liðum og er áherslan á fimm aðalflokka: Rjúfa „fæðukeðjuna“ í átt að alvarlegri glæpum, börn og foreldrar eigi að finna fyrir afleiðingum glæpsamlegrar hegðunar, forvarnaraðgerðir eigi að beinast að börnum og ungmennum;  beina eigi athyglinni að ungmennum í varðhaldi sem eru að hefja sín fyrstu skref á glæpabrautinni; loks eigi eftirfylgni að vera virk.

Í fyrra kynnti Poulsen, ásamt félagsmálaráðherranum Mai Mercado framtakið „Öllum gjörðum fylgja afleiðingar“ en með þeim var sakhæfisaldurinn lækkaður úr 15 árum niður í 12 ár.

Þrengt að réttindum barna 

„Fyrir okkur hjá UNICEF á Íslandi er ekkert sem getur afsakað innihald þessa lagatexta,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, sem kveðst hafa fengið að sjá frumvarpsdrögin fyrir tilviljun. „Ég fékk að vita að það væri verið að vinna að þessu og að mögulega færi þetta út í umsagnarferli fljótlega,“ segir hann.

Bergsteinn segir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveði á um að forðast eigi hvers konar refsidóma, frelsissviptingu og varðhald barna. „Það þarf að leita fjölskylduúrræða eða annarra félagslegra úrræða í stað fangavistar þar sem áherslan er á menntun, enduraðlögun og endurhæfingu. Því að grundvallaratriðið er að börn sem brjóta lög eru fyrst og fremst börn og þau eiga þessi ófrávíkjanlegu mannréttindi sem standa í barnasáttmálanum og öðrum mannréttindasáttmálum,“ útskýrir hann.

Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi segir samtökin á Íslandi ...
Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi segir samtökin á Íslandi hafa áhyggjur af þessari þróun.

„Við hér á Íslandi höfum miklar áhyggjur af þessari þróun, ef þetta er þróunin. Okkur finnst vera mjög þrengt að mannréttindum barna fyrir utan hvað þetta setur jaðarhópa barna í miklu meiri hættu og eykur líkurnar og hættuna á stimplun hvers konar.“

Hann bætir við að umræðan í Danmörku um afbrot ungmenna hafi mikið beinst gegn ákveðnum hópum og þá sérstaklega þriðju kynslóðar innflytjendum og hælisleitendum og börnum tengdum þeim.

Líkt og áður sagði þá kveða frumvarpsdrögin á um að hægt verði að hneppa 10-14 ára börn í svo nefnt betrunarvarðhald  í allt að fjögur ár. „Nú þekkjum við ekki fyrirkomulagið á þessu betrunarvarðhaldi, en það þarf að vera mjög vakandi yfir því að það fylgi ákvæðum barnasáttmálans sem er mjög skýr um að það eigi að forðast frelsissviptingu í lengstu lög og að fjölskylduúrræði eigi að vera nýtt,“ segir Bergsteinn.

Hvenær verður frelsissvipting að pyntingum?

Varðhald og frelsissviptingu á börnum geti auðveldlega geta breyst yfir í ómannúðlega meðferð með óafturkræfum afleiðingum. „Það má jafnvel bæta við spurningunni hvenær frelsissvipting barns verður að pyntingum?“ spyr Bergsteinn. Barnasáttmálinn taki enda líka skýrt á því að ekki eigi að beita börn ómannúðlegum refsingum eða pyntingum.

Danir hafa samþykkt barnasáttmálann, en ekki lögfest hann líkt og Íslendingar. „Ef við værum hér á Íslandi þar sem barnasáttmálinn hefur verið lögfestur og færður í lög þá þá væri hægt að vefengja frumvarpið á grundvelli íslenskra laga.“ Sjálfur telur hann líka ólíklegt að frumvarpsdrögin standist ákvæði danskra laga líkt og þau eru í dag. „Þau brjóta líka væntanlega gegn fjölda annarra mannréttindasáttmála,“ bætir hann við.

Bergsteinn segir Unicef á Íslandi munu fylgjast með þessari þróun og  reyna að koma á opinni umræðu um frumvarpsdrögin við Unicef á hinum Norðurlöndunum. „Ég get svo ekki ímyndað mér annað en að dönsk félagasamtök eigi líka eftir að taka málið upp.“ 

mbl.is
Infrarauður Saunaklefi 229.000
Infrarauður Saunaklefi - 249.000 Tilboð : 229.000 Er á leiðinni 8-10 vikur ( 30...
20.000 kr lækkun á nuddbekkjum tímabundið www.egat.is
Ef þú ert mikið fyrir að fara upp á bekk og nudda viðskiptavin þannig þá er þett...
STIGAR OG HANDRIÐ ALLAR MÖGULEGAR GERÐIR
Mælum, teiknum, smíðum og setjum upp, myndir á Facebook: Magnus Elias>Mex byggin...
KRISTALS LJÓSAKRÓNUR ÚTSALA er að byrja
Glæsilegar kristalsljósakrónur fyrir falleg heimili. ÚTSALA Handskornar kristal...